Fulltrúar í minnihluta Múlaþings gagnrýna harkalega bókun meirihlutans í sveitarfélaginu um hækkun veiðigjalda. Bent er á að stórútgerðin hafi farið illa með sjávarpláss sveitarfélagsins og það sé pólitískur forarpyttur að amast við því að útgerðin greiði sanngjarnt gjald til innviðauppbyggingar landsins.
Málið var rætt í byggðarráði Múlaþings í gær. Lagði meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks fram bókun þar sem tekið var undir ályktun Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga um gagnrýni á hækkun veiðigjalda. Meðal annars skort á samráði ríkisstjórnarinnar og stuttan umsagnarfrest. Einn fulltrúi minnihlutans, Þröstur Jónsson oddviti Miðflokksins, studdi bókun meirihlutans.
Eyþór Stefánsson lagði þá fram bókun fyrir hönd Austurlistans og Vinstri grænna þar sem bókun meirihlutans var harkalega gagnrýnd.
Benti minnihlutinn á að beinir hagsmunir Múlaþings í þessu máli væru litlir þar sem áhrif á þá sjávarútvegsstarfsemi sem eftir er innan sveitarfélagsins sé lítil.
„Má deila um hvort Múlaþing þyrfti yfir höfuð að skila inn umsögn.
Þar sem stórútgerðin hefur ítrekað rústað sjávarútvegsstarfsemi í sjávarplássum Múlaþings er erfitt að sjá hvata sveitarfélagsins til þess að leggjast gegn því að sama útgerðin greiði sanngjarnt gjald til innviðauppbyggingar landsins. Það hljómar eins og pólitískur forarpyttur,“ segir í bókuninni.