fbpx
Fimmtudagur 03.apríl 2025
Fréttir

Segir að auðveldlega hefði verið hægt að koma í veg fyrir banaslysið í fyrradag

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 2. apríl 2025 10:47

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Málið stendur mér nærri en fyrir nokkrum árum klessti mamma mín á grjót sem fallið hafði úr fjallinu. Bíllinn eyðilagðist en mamma var heppinn, hún komst frá þessu ósködduð. Staðreyndin er sú að hægt er að koma í veg fyrir að slys af þessu tagi eigi sér stað.“

Þetta segir Ingveldur Anna Sigurðardóttir, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, í aðsendri grein á Vísi. Ingveldur er búsett við Steinafjall á bænum Varmahlíð undir Eyjafjöllum.

Í fyrradag varð banaslys þegar grjót hrundi úr fjallinu og á bifreið sem ók hjá. Þrír erlendir ferðamenn voru í bílnum og lést einn þeirra en tveir hlutu minniháttar áverka.

Sjá einnig: Einn látinn eftir að grjót hrundi á bíl á Suðurlandsvegi

Vegir molna í sundur

Í grein sinni bendir Ingveldur á að með stuttu millibili hafi orðið nokkur alvarleg bílslys hér á landi með þeim afleiðingum að nokkrir hafi látist.

„Lítið barn, maður á besta aldri og kona sem var á ferð um landið. Vegir um allt land eru að molna í sundur og víða er vörnum við vegi ábótavant,“ segir hún.

„Í fyrradag lést einstaklingur vegna grjóthruns úr Steinafjalli, hruns sem auðveldlega hefði verið hægt að verjast. Það er enda engin nýlunda að stórt grjót falli úr fjallinu og niður á veginn. Grjót sem venjulega er fjarlægt eins fljótt og hægt er af bændum í kring eða eftir atvikum Vegagerðinni,“ segir hún. Sem fyrr segir lenti móðir hennar í slysi á veginum þegar hún ók á grjót sem hafði fallið á veginn.

„Hefur ekki sést síðan“

Ingveldur bendir á að víða um land sé að finna varnir við vegi sem liggja við skriður, svo sem við Hvalnesskriður.

„Brýnt er að settar verði upp varnir sem grípi grjótið áður en það lendir á veginum eða bílum sem keyra framhjá fjallinu. Um þessa leið aka mörg þúsund manns á degi hverjum, fólk sem sækir vinnu til Hvolsvallar eða Víkur, skutlar börnum í leikskóla og skólabílar sem fara þarna nokkrar ferðir á dag. Hvers vegna er ekki búið að koma upp vörnum?“

Ingveldur segir að vegirnir hringinn í kringum landið séu komnir að þolmörkum.

„Vegurinn um Holtsnúp er bæði mjór og liggur í dæld svo skyggnið er ekki alltaf frábært. Fyrir nokkrum árum var tekið til þess bragðs að lækka hámarkshraða á veginum. Eftir að mamma klessti á grjótið voru sett upp blikkljós sem fengu að standa í um það bil mánuð. Slikt hið sama hefur verið gert núna, í kjölfar banaslyss. Þar að auki vaktaði Vegagerðin svæðið eftir slysið fram að kvöldmat og hefur ekki sést síðan,“ segir hún.

Spyr hún hvers virði líf íbúa á svæðinu er.

„Er virðið mælt í blikkandi keilum eða raunverulegum vörnum við veginn? Er það mælt í fjölda grjóthnullunga sem falla á veginn og fólk keyrir á? Varnir við vegin eiga ekki að fara í nefnd eða mat – heldur beint í framkvæmd, þetta gengur ekki lengur. Það má öllum vera orðið ljóst. Vegagerðin verður að svara fyrir aðgerðarleysi sitt og bregðast almennilega við. Blikkandi viðvörunarljós eru ekki nægjanleg.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Pétur mælir ekki með að fólk kaupi allar raðirnar í Lottó – „Þá er hann í vondum málum“

Pétur mælir ekki með að fólk kaupi allar raðirnar í Lottó – „Þá er hann í vondum málum“
Fréttir
Í gær

Páll telur að enn eigi mikið eftir að gerast

Páll telur að enn eigi mikið eftir að gerast