DV greindi frá því á mánudag að til að gera það þurfi að punga út 127 milljónum króna. Þar sem potturinn stefnir í 160 milljónir gæti það orðið góð ávöxtun, en aðeins ef viðkomandi situr einn að þeim stóra. Ætla má að margir muni kaupa sér lottómiða fyrir helgina og því gæti vinningurinn skipst á milli nokkurra miðaeigenda.
Sjá einnig: Varstu að hugsa um að kaupa allar raðirnar í Lottó? – Þá erum við með slæmar fréttir
Pétur segir að það sé fræðilega hægt að kaupa allar raðirnar í lottóinu en efast um að einhver sé tilbúinn að leggja þá vinnu á sig, ekki síst í ljósi þess ef fleiri en einn vinna. „Þá er hann í vondum málum.“
Í viðtalinu gaf Pétur sér það að maður færi í bankann til að taka út 127 milljónir króna. Ekki er hægt að kaupa allar raðirnar á vef lottósins vegna takmarkana þar og þá eru kreditkort aðeins með ákveðna heimild.
„Þá þarf hann að fara á sölustaði og finna rúmlega 3.500 miða af því það er mest hægt að kaupa 10 raðir. Þessa 3.500 miða finnur hann ekki í einni sjoppu þannig að hann þarf að fara í nokkrar og fylla miðana út,“ sagði hann og bætti við að viðkomandi þyrfti að passa að vera með allar tölurnar.
„Það má ekkert klikka í formúlunni hjá honum þannig að hann þarf að vanda sig. Ef einhver ætlar að gera þetta þarf hann að byrja núna, það þýðir ekkert að fara á laugardag því það mun ekki vinnast tími til að klára. En fræðilega séð þá gæti þetta gerst,“ sagði hann.
Nánast strax eftir útdrátt síðasta laugardags var gefið út að lottópotturinn myndi stefna í 160 milljónir. Aðspurður hvernig Íslensk getspá veit í hvað potturinn stefnir segir Pétur að sagan geymi þessar upplýsingar.
„Sagan segir okkur hvað gerist, við erum búin að vera að reka lottó frá 1986 og við vitum nokkurn veginn hvernig salan verður vikuna á eftir miðað við hversu stór potturinn er. En auðvitað er þetta áætlun og auðvitað getur þetta skakkað 500 þúsund krónum til eða frá.“
Í vikunni var greint frá því að til standi að fjölga lottótölunum úr 42 í 45 sem þýðir að það verður erfiðara að vinna þann stóra þegar breytingin nær í gegn. Pétur útskýrði þetta í viðtalinu.
„Leikurinn þróast með þjóðinni og leikurinn er þannig uppsettur að þú þarft að vera með ákveðinn fjölda vinningshafa og ákveðna upphæð á vinningunum. Ef líkurnar eru of góðar, það vinna margir, og vinningarnir verða lágir,“ sagði Pétur og nefndi til dæmis þegar fólk kaupir 10 raða miða á 1.500 krónur en fær svo kannski bara 400 til 500 krónur í vinning.
„Þá þarf að bregðast við og þá þarf að minnka líkurnar og gera aðeins erfiðara að vinna og með því að gera erfiðara að vinna ertu að hækka vinninginn. Þetta er mikið reikningsdæmi vegna þess að leikurinn má ekki vera of auðveldur en ekki heldur of erfiður,“ sagði hann og nefndi að þá væri hvatinn lítill til að vera með.
Eins og áður segir stefnir í að fyrsti vinningur í Lottó á laugardaginn verði 160 milljónir króna. Fyrra metið var áttfaldur pottur árið 2013 sem varð 139 milljónir króna. Tveir vinningshafar skiptu þá með sér vinningsupphæðinni.