Margrét Friðriksdóttir segist hafa fengið þau boð úr Héraðsdómi Reykjavíkur að mál Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu gegn henni verði fellt niður ef hún biður afsökunar á meintum meiðyrðum sínum í garð Barböru Björnsdóttur héraðsdómara.
Margrét lét hörð ummæli um viðkvæm persónuleg málefni Barböru falla á Facebook-síðu sinni í kjölfar þess að Barbara sakfelldi hana fyrir hótanir í garð baráttukonunnar Semu Erlu Serdaroglu, vegna atviks sem átti sér stað á Benzin Cafe við Grensásveg síðla sumars árið 2018. Landsréttur sneri síðan dómnum við og sýknaði Margréti af ákæru um hótanir.
Barbara kærði ummæli Margrétar til lögreglu sem ákærði hana fyrir meiðyrði. Margrét er ósátt við að ákveðið hefur verið að þinghald í málinu verði fyrir luktum dyrum og að hún fái ekki að leiða fram þau vitni sem hún vill leiða fram.
Margrét er engu að síður alvarlega að velta fyrir sér hvort hún eigi að þiggja tilboð um að biðjast afsökunar og fá málið fellt niður. Segist hún vera orðin þreytt á því að vera leidd fyrir dómstóla því hún hafi svo margt annað við tíma sinn að gera. Hún segir í Facebook-færslu:
„Kæru fb-vinir, langar að leita ráða hjá ykkur varðandi yfirvofandi dómsmál
Eins og flestum er kunnugt þá hefur dómari héraðsdóms Reykjavíkur kært mig fyrir ummæli sem ég lét fjalla um hana eftir að hún framdi á mér réttarmorð í máli Semu Erlu Serdaroglu sem ég síðar vann fyrir Landsrétti.
Ég viðurkenni alveg að ég var fremur harðorð og mér hefur fundist það leitt, legg ekki í vana minn að láta svona ummæli frá mér nema rík ástæða liggi að baki. Ummælin voru þó ekki úr lausu lofti gripin og eiga við rök að styðjast.
Ákæruvaldið hafnar því að vitni verði leidd fyrir dóminn, og hafnar einnig að sönnunargögn verði birt sem sannar mál mitt ásamt því fara þau fram á lokað þinghald.
Fyrir ekki svo löngu síðan hafði starfsmaður Héraðsdóms Reykjavíkur samband við minn lögmann bað um að það væri nafnlaust, þar sem mér er gefin kostur á því að biðjast afsökunar á ummælunum og þá munu þau hætta við ákæruna og láta málið niður falla.
Hvað mynduð þið gera í mínum sporum, er orðin vel þreytt á að vera dregin ítrekað fyrir dómstóla fyrir engar sakir og hef svo mörgu öðru mikilvægu að sinna?“