Kvartað hefur verið yfir framferði sumra leigubílstjóra, eða svokallaðra harkara, eftir að lögum um leigubílaakstur var breytt og ekki þarf lengur að vera skráður á leigubílastöð til að aka leigubíl gegn gjaldi.
Ásakanir eru uppi óboðlega framkomu, yfirgang og jafnvel ofbeldi af hendi sumra þeirra manna sem hingað koma erlendis frá og stunda leigubílaakstur, oft í skamman tíma.
Leigubílstjórinn Ingunn Guðnadóttir ræddi þessi mál á Bylgjunni í gær. Greinir hún frá því að ung stúlka hafi tekið bíl sem merktur var „Ober“ en þegar hún steig inn í bílinn var þar enginn gjaldmælir eða annað sem tilheyrir alvöru stöðvarbílum. Bað hún um að vera ekið heim til foreldra sinna. Bílstjórinn, erlendur harkari, rukkaði hana um 20 þúsund krónur, fyrir akstur sem hefði í mesta lagi átt að kosa 5.5oo krónur, enda um innanbæjarleið að ræða.
Faðir stúlkunnar kom út og átti í þrefi í við bílstjórann en ákvað að lokum að greiða honum 10 þúsund krónur til að losna við hann. Sagðist faðirinn ætla með málið til Samgöngustofu strax eftir helgina. „Daginn eftir var bankað upp á hjá honum og þar voru tveir menn að rukka tíu þúsund kallinn frá deginum áður,“ segir Ingunn.
Ingunn segir erlendu harkarana sýna slíkan yfirgang á planinu við Leifsstöð að hún sem kona komi ekki þangað. Einu sinni hafi þar verið harkari á stórum Benz sem tók mikinn farangur. En þegar í ljós kom að ferðamennirnir ætluðu ekki til Reykjavíkur heldur á Hótel Keflavík hafi bílstjórinn rifið farangurinn aftur út úr bílnum og ekki viljað túrinn.
Ingunn segir marga þessa menn bera sig þannig að í starfi að hún trúi því ekki að þeir hafi náð harkaraprófi með eðlilegum hætti og því síður að þeir séu með meirapróf, eins og er áskilið fyrir leigubílaakstur.
„Það er sorglegt að menn sem standa sig vel og gera það sem þeir geta tl að læra íslensku og eru þægilegir og kurteisir – þetta bitnar á þeim,“ segir Ingunn ennfremur.
Hún segist óttast að tjá sig um þessi mál. Þáttarstjórnendur á Bylgjunni spurðu hvers vegna: „Þú mátt ekkert segja hér í þessu þjóðfélagi. Þú mátt ekkert segja ef það hefur eitthvað með útlendinga að gera. En það sem fólk hefur verið að segja manni, farþegar, í hverju það hefur lent, þó að ekki væri nema 10% af því rétt er það samt skelfilegt.“
Ingunn segist einnig óttast mennina sjálfa: „Til dæmis þessir menn, ég vil ekki að þeir viti hvar ég á heima. Sumir eru hættulegir.“
Hlusta má á viðtalið hér.