Allir bæjarfulltrúar í Reykjanesbæ tóku undir harðorða bókun á bæjarstjórnarfundi í gær. Í bókuninni felst hörð gagnrýni og raunar er notað orðið fordæming vegna vinnubragða mennta- og barnamálaráðuneytisins. Samkvæmt bókuninni hefur umsókn frá fræðslustofnuninni Keili, sem staðsett er í bænum, um endurnýjun á því að vera viðurkenndur einkaskóli á framhaldsskólastigi legið inni í ráðuneytinu mánuðum saman. Bókunin var lögð fram og samþykkt á síðasta fundi bæjarráðs en á bæjarstjórnarfundinum las Guðný Birna Guðmundsdóttir forseti bæjarstjórnar upp bókunina.
Í bókuninni segir að erindi Keilis hafi legið inni í ráðuneytinu í 20 vikur og að þau vinnubrögð séu fordæmd, enda sé það ekki í samræmi við góða stjórnsýslu. Bæjarráð leggi mikla áherslu á að svokallað fjarnámshlaðborð og opna stúdentsbrautin í Keili verði sem fyrst viðurkennd enda hafi verið unnið í samráði við ráðuneytið að því að endurskilgreina Keili og vinna að fjárhagslegum stöðugleika, og komi það því verulega á óvart að ráðuneytið viðurkenni ekki Keili sem einkaskóla á framhaldsskólastigi.
Ferill málsins er rakinn nánar í bókuninni. Þar segir að Keilir miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs eins og skólinn heitir fullu nafni hafi óskað eftir endurnýjun á umsókn um að verða viðurkenndur einkaskóli á framhaldsskólastigi til ráðuneytisins 12. nóvember 2024 og bíði enn endanlegra svara. Þann 16. desember hafi borist svar frá mennta- og barnamálaráðuneytinu þess efnis að umsókn Keilis sé synjað vegna rekstrarvanda skólans síðustu ár og fjárhagsstaða hans sé slík að Keilir uppfylli ekki skilyrði sem lúti að fjárhagsmálefnum og tryggingum. Í bókuninni segir hins vegar að þrátt fyrir að Keilir hafi sýnt fram á að skólinn sé rekstrarlega stöðugur, hafi ekki borist svar við endurmati á umsókninni. Sjö vikur séu síðan óskað hafi verið eftir endurmati í ljósi breyttrar rekstrarstöðu og tæpar 20 vikur séu síðan upphafleg umsókn var send til ráðuneytisins.
Þess má geta að á þessum 20 vikum hafa verið þrír mismunandi ráðherrar í ráðuneytinu.
Segir enn fremur í bókuninni að samstarfssamningur varðandi háskólabrú, hjá Keili, hafi verið gerður við Háskóla Íslands til næstu 4 ára. Það nám falli undir menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneytið. Bæjarráð Reykjanesbæjar fagni þeim samningi og telji farsælt að vera í samstarfi við HÍ um námið.
Að lokum skorar bæjarráð Reykjanesbæjar á ráðherra mennta- og barnamála og þingmenn Suðurkjördæmis að beita sér fyrir því að framtíð náms og námsframboðs á Suðurnesjum verði tryggð.
Eins og áður segir var bókunin lesin upp á bæjarstjórnarfundi í gær og tóku allir bæjarfulltrúar, ellefu talsins, undir hana.