fbpx
Laugardagur 19.apríl 2025
Fréttir

Kristján Loftsson harðorður – „Alþingi ræður engu í dag hér“

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 17. apríl 2025 20:30

Kristján Loftsson. Mynd: Skjáskot/Youtube.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hinn umdeildi Kristján Loftsson, forstjóri Hvals hf., liggur ekki á skoðunum sínum frekar en fyrri daginn. Kristján gagnrýnir harðlega aðkomu eftirlitsstofnana að til að mynda eftirliti með sjávarútvegi á Íslandi og segir vald þeirra í þeim málaflokki og raunar fleirum orðið allt of mikið. Alþingi ráði engu þar um frekar en í öðrum málaflokkum og stofnanirnar þurfi heldur ekki að þola aðhald að neinu ráði frá ríkisstjórninni. Gagnrýnir Kristján sérstaklega vald slíkra stofnana til að leggja á sektir.

Þetta er meðal þess sem Kristján ræðir í fyrsta þætti Sjókastsins, nýs hlaðvarps á vegum Sjómannadagsráðs en stjórnandi þess er formaður ráðsins Aríel Pétursson.

Aríel spyr Kristján í hlaðvarpinu um þá mörgu slagi sem hann hefur tekið við ýmis samtök vegna hvalveiða fyrirtækis hans en einnig um glímuna við stjórnvöld:

„Þú verður að átta þig á að Alþingi ræður engu í dag hér, meira og minna. Þeir eru búnir að útsorsa (útvista. innsk. DV) þessu öllu í þessar stofnanir. Þeir eru komnir með lögregluvald líka. Ég held að menn átti sig ekki almennilega á þessu. Taktu til dæmis Matvælastofnun. Þeir ausa út stjórnvaldssektum hér hægri vinstri. Þeim dettur þetta bara í hug og finnst þetta bara sniðugt.“

Drónar

Kristján gagnrýnir einnig notkun Fiskistofu á drónum við eftirlit með fiskveiðum meðal annars hjá smábátum:

„Sendir þeim svo sektarbréf og fleira löngu seinna. Hann sagði mér hann Örn (Pálsson framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda, innsk. DV) að hálfu ári seinna fengu menn einhver bréf um það að þeir hefðu átt að hafa hent einhverjum fiski. Mér finnst þetta algerlega út í bláinn.“

Rifjar Kristján því næst upp þær aðferðir sem beitt var við refsingar vegna veiða erlendra skipa í landhelginni í þorskastríðunum:

„Þeir voru ekki ákærðir fleiri mánuðum seinna. Þeim var stefnt í höfn þar sem var sýslumaður. Það var réttað í málinu strax og þeir urðu að setja tryggingu fyrir hámarkssekt sem gæti komið og síðan var málið rekið seinna. Að mínu mati ætti þetta að vera svona líka núna.“

Kristján segist líta svo á að í málum sem varða sektir frá eftirlitsstofnunum eins og til dæmis Matvælastofnun og Fiskistofu eigi að rétta í málunum strax:

„Ekki að þeir geti verið að leika sér með upptökurnar og jafnvel klippa þær til og allan fjandann. Það er ekki hægt fyrir borgarana að una því.“

Fyrir rétti

Kristján leggur mikla áherslu á að hann telji að stjórnvaldssektir verði að vera staðfestar fyrir rétti en ekki að starfsmenn viðkomandi stofnana hafi um þær sjálfdæmi. Vissulega sé hægt að fara í mál vegna slíkra sekta en það sé kostnaðarsamt og ekki auðvelt fyrir til dæmis smáfyrirtæki og einyrkja.

Fyrirtæki Kristjáns, Hvalur, stendur um þessar mundir í málarekstri vegna stjórnvaldssektar Matvælastofnunar sem hann segir hafa komið til vegna þess að stofnunin telji starfsmenn Hvals hafa staðið rangt að hvalveiðum. Kristján fullyrðir að minnihluti af starfsmönnum stofnunarinnar hafi verið á sjó og hafi þar með enga reynslu af eða þekkingu á slíkum störfum. Hann segist ekki telja það góða þróun að stofnun með svona mannavali hafi svo mikil völd yfir veiðum.

Kristján segist telja að Samtök atvinnulífsins, Bændasamtökin og önnur samtök atvinnurekenda styðji ekki nægilega vel við bakið á félagsmönnum sínum þegar kemur að glímunni við eftirlitsstofnanir og sektir þeirra og að leita réttar síns vegna þessa:

„Þetta er myndi ég segja öðrum til viðvörunar ef þessi samtök annaðhvort setja upp einhvern sjóð sem menn borga í og hægt er að nota í þetta en að láta þetta bara viðgangast orðalaust finnst mér algerlega út í bláinn.“

Aðhald

Kristján segir skorta aðhald með þeim eftirlitsstofnunum sem hann gagnrýnir hvað harðast. Hann nefnir að engin stjórn er yfir Matvælastofnun sem heyri þá beint undir ráðherra, sem í þessu tilfelli er atvinnuvegaráðherra. Meðal tillagna hagræðingarhóps ríkisstjórnarinnar var að sparað yrði með því að leggja niður stjórnir ríkisstofnana en til að mynda hefur verið lagt fram frumvarp um að leggja niður stjórn Sjúkratrygginga. Kristján telur hins vegar mikilvægt að eftirlitsstofnanir njóti aðhalds með þeim hætti að yfir þær séu settar stjórnir annars leiki starfsmenn lausum hala án aðhalds frá viðkomandi ráðherra en hvorki Fiskistofa né Matvælastofa séu með stjórnir:

„Þegar þú ert með þetta svona þá er þetta bara sjálfala.“

Kristján telur það góða hugmynd að yfir ríkisstofnunum séu stjórnir sem skipaðar séu fólki úr ýmsum áttum en í þeim megi helst ekki vera fleiri en fimm manns. Hann telur að stjórnir myndu taka í taumana ef að starfsmenn stofnana gengju of langt og færu á svig við lög og reglur og hægt ætti að vera að leita til stjórnanna ef fólk vilji kvarta yfir framgöngu starfsmanna:

„Að hafa svona stofnanir sjálfala gengur ekki að mínu mati.“

Ekki á útleið

Í þættinum ræðir Kristján ýmislegt fleira svo sem upphafsár sín í sjávarútvegi, hugmyndir sínar um lausn á húsnæðisvandanum, hvernig ríkið eigi að skipuleggja þær stofnanir sem hafa með málefni sjávarútvegsins að gera, gagnrýni á hvalveiðar, aðferðir við veiðarnar og áhrif hvalaafurða á heilsuna. Sömuleiðis ræðir hann stöðu stjórnmálanna og lætur til að mynda Guðrúnu Hafsteinsdóttur formann Sjálfstæðisflokksins heyra það. Aðspurður hvort að, í ljósi þess að hann sé kominn á níræðisaldur, hann sé ekki farinn að huga að því að draga sig í hlé frá störfum sínum er svar Kristjáns skýrt og skorinort, að hans hætti:

„Af hverju?“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Seyðfirðingar reiðir við Landsbankann – Banki í ríkiseigu eigi að þjónusta allt landið

Seyðfirðingar reiðir við Landsbankann – Banki í ríkiseigu eigi að þjónusta allt landið
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Gervigreindin aðstoðar 9 manna fjölskyldu Arnars við að lækka matarreikninginn – „Höfum við farið niður í 15–20 þúsund krónur á viku“

Gervigreindin aðstoðar 9 manna fjölskyldu Arnars við að lækka matarreikninginn – „Höfum við farið niður í 15–20 þúsund krónur á viku“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Zelenskyy heyrir Rússa hvísla þegar J.D. Vance öskrar

Zelenskyy heyrir Rússa hvísla þegar J.D. Vance öskrar
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Trump fjarlægði málverk af Obama og setti eitt af sjálfum sér í staðinn

Trump fjarlægði málverk af Obama og setti eitt af sjálfum sér í staðinn