Seyðfirðingar eru reiðir vegna fyrirhugaðrar lokunar útibús Landsbankans í bænum. Telja þeir að leita eigi allra leiða til að halda úti þjónustu á landinu öllu.
Þetta kemur fram í bókunum heimastjórnar Seyðisfjarðar sem byggðaráð Múlaþings tekur undir. Er fyrirhugaðri lokun Landsbankaútibúsins harðlega mótmælt.
„Það er ólíðandi að banki í eigu hins opinbera skuli ekki leita allra leiða til að halda úti þjónustu á landinu öllu,“ segir í bókun Seyðfirðinganna. „Fjölmörg störf í bankaþjónustu þurfa ekki að vera bundin við staðsetningu og því er vel hægt að færa verkefni bankans sem vinna má í fjarvinnu, út á land, til að styrkja þau útibú sem eru til staðar og jafnvel fjölga stöðugildum á landsbyggðinni frekar en að fækka þeim.“
Sagt er að fjölmörg fyrirtæki hafi starfsfólk í vinnu við ýmis verkefni, jafn vel í öðrum löndum í gegnum fjarvinnu. Landsbankinn ætti að styrkja stoðir sínar um allt land frekar en að setja alla starfsemina á einn stað.
„Þá er vert að beina því til banka sem er í eigu ríkisins að ákveðnar skyldur hvíli á slíkri stofnun þegar kemur að jöfnu aðgengi íbúa landsins að þjónustu bankans,“ segir í bókun byggðaráðs. Var sveitarstjóra falið að fylgja málinu eftir við bankastjóra Landsbankans og fjármálaráðuneytið.