fbpx
Laugardagur 19.apríl 2025
Fréttir

Mismunaði eigin systurdóttur og rak hana þegar hún kvartaði

Jakob Snævar Ólafsson
Miðvikudaginn 16. apríl 2025 21:00

Kærunefnd jafnréttismála heyrir undir dómsmálaráðuneytið.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kærunefnd jafnréttismála hefur komist að þeirri niðurstöðu að kona hafi orðið fyrir mismunun í launakjörum, vegna aldurs, í störfum sínum við ræstingar fyrir ónefnt fyrirtæki. Fram kemur í úrskurði nefndarinnar að forstjóri fyrirtækisins sé móðurbróðir konunnar og nefndin segir að lög hafi verið brotin með því segja henni upp störfum þegar hún þegar hún kvartaði við frænda sinn og fór fram á leiðréttingu á kjörum sínum.

Málavextir eru raktir í úrskurðinum. Konan hóf störf hjá fyrirtækinu 2014 í hlutastarfi. Með henni starfaði kona í nákvæmlega sama starfshlutfalli, sem var 30 árum eldri. Sú kona er raunar móðursystir konunnar sem kærði en henni var einnig sagt upp störfum.

Konan fór utan til náms árið 2022 en móðir hennar leysti hana af að hluta til á meðan en á svipuðum tíma komst konan að því að móðursystir hennar væri með helmingi hærri laun en hún.

Konan fór þá í kjölfarið fram á að laun hennar yrðu hækkuð til samræmis við laun móðursysturinnar en hana og fyrirtækið greindi á um hvort loforð um að það yrði gert hafi verið veitt eða hvort lofað hafi verið að farið yrði yfir laun hennar í tengslum við jafnlaunavottun sem unnið var að hjá fyrirtækinu um þetta leyti.

Móðurbróðirinn

Í úrskurðinum segir að í upphafi árs 2023 hafi konan ítrekað beiðni sína um launaleiðréttingu við forstjóra fyrirtækisins en forstjórinn sé móðurbróðir hennar. Hvað nákvæmlega fór þeim á milli greindi þau á um en daginn eftir að samtalið fór fram var konunni sagt upp störfum með skriflegum hætti.

Fyrirtækið vildi meina að konunni og móðursystur hennar hafi verið sagt upp í hagræðingarskyni þar sem þegar hafi verið tekin ákvörðun um að útvista ræstingum til þriðja aðila.

Í kæru sinni sagði konan meðal annars að enginn munur hefð verið á starfsreynslu eða menntun hennar og móðursysturinnar og þrátt fyrir það hefði hún fengið helmingi lægri laun fyrir sama starf og starfshlutfall.

Konan sagði í kærunni að starfsmannastjóri fyrirtækisins, en þau séu systkinabörn, hafi lofað að laun hennar yrðu leiðrétt. Systir hennar hafi orðið vitni að samskiptum þeirra en þegar hún hafi ýtt á eftir efndum, við móðurbróður sinn forstjórann, hafi henni þegar í stað verið sagt upp störfum eftir að hún hafi ekki sætt sig við að vera mismunað í launum. Að skipan hans hafi hún mætt aftur daginn eftir og tekið við uppsagnarbréfi frá starfsmannastjóranum, frænda sínum.

Ekki yfirmaður

Konan hafnaði alfarið þeim fullyrðingum forstjórans að samstarfskona hennar og móðursystir hafi verið yfirmaður hennar. Það hafi móðursystirin sjálf staðfest.

Konan gerði margvíslegar athugasemdir við starfslok sín og starfsaðstæður hjá fyrirtækinu. Sagði hún málatilbúnað þess fyrir nefndinni fela í sér gróf ósannindi og rangfærslur. Hún segir fyrirtækið hafa réttilega bent á náin fjölskyldutengsl milli hennar og eigenda og stjórnenda þess en þau eigi ekki að nota til að mismuna eða níðast á starfsfólki.

Benti konan á að tölvupóstur til ræstingafyrirtækis sýni fram að fyrirtækið hafi ekki farið í viðræður um útvistun þrifa fyrr en sama dag og henni var sagt upp. Það líti þá út fyrir að hin meinta hagræðing hafi ekki verið ákveðin fyrr en henni og móðursystur hennar var sagt upp.

Ekki sagt upp vegna krafna

Í andsvörum fyrirtækisins var fullyrt að konunni hefði verið sagt upp í hagræðingarskyni en ekki vegna kröfu hennar um leiðréttingu á kjörum sínum. Móðursystirin hafi verið yfirmaður hennar og unnið lengri vinnutíma og því átt rétt á hærri launum.

Konan hafi í upphafi árs 2023 kvartað undan launum sínum og sagst ætla að fara með málið til stéttarfélags síns ef hún fengi ekki launahækkun. Forstjórinn hafi þá spurt hana hvort væri ekki best fyrir hana að hætta fyrst hún væri svona ósátt með launin en hún þvertekið fyrir það. Í framhaldi fundarins hafi starfsmannastjóri og forstjóri fundað og ákveðið að hrinda af stað hagræðingarferli sem hefði verið lauslega rætt mánuðina á undan. Konunni hafi verið boðinn í kjölfarið starfslokasamningur en þegar hún hafi hafnað honum hafi henni verið sagt upp.

Fyrirtækið neitaði því þó að meint hótun konunnar um að leita til stéttarfélagsins hafi verið hvatinn að uppsögninni.

Fyrirtækið hafnaði því að áður en að uppsögninni kom hafi konan hafi fengið loforð um launaleiðréttingu aðeins hafi verið heitið endurskoðun vegna vinnu við jafnlaunavottun.

Mismunun

Í niðurstöðu kærunefndar jafnréttismála segir að fjölskyldutengsl málsaðila breyti engu um þá vernd sem konan njóti samkvæmt lögum um jafna meðferð á vinnumarkaði.

Nefndin segir að í málinu liggi fyrir uppsagnarbréf og gögn sem sýni fram á að móðursystir konunnar hafi verið með helmingi hærri laun en hún og haft 11 ára lengri starfsaldur. Engar starfslýsingar eða ráðningarsamningar liggi hins vegar fyrir og af því verði fyrirtækið að bera hallann. Í ljósi afdráttarlausra yfirlýsinga konunnar og móðursystur hennar um að sú síðarnefnda hafi ekki verið hærra sett verði ekki annað séð en þær hafi gegnt sambærilegu starfi og því hafi konunni verið mismunað í launum á grundvelli aldurs, sem gangi gegn lögum um jafna meðferð á vinnumarkaði.

Fyrirtækið hafi ekki lagt fram fullnægjandi skýringar á launamuninum.

Ólögleg uppsögn

Hvað varðar uppsögnina segir nefndin að óumdeilt sé að í upphafi árs 2023 hafi konan á fundi með móðurbróður sínum, forstjóranum, farið fram á leiðréttingu launa og verið sagt upp daginn eftir. Forstjórinn hafi sjálfur sagst hafa sagt þá við frænku sína að kannski væri best að hún hætti. Með vísan til þessa fellst nefndin á að konunni hafi verið sagt upp vegna beiðninnar um launaleiðréttingu, sem sé brot á lögum um jafna meðferð á vinnumarkaði.

Nefndin vísar einnig til misræmis í svörum fyrirtækisins um hvenær hafi verið ákveðið að hagræða í rekstri með því að útvista ræstingum til utanaðkomandi aðila, sem fyrirtækið sagði ástæðuna fyrir uppsögn konunnar og móðursystur hennar. Gögn málsins bendi raunar til að sú ákvörðun hafi verið tekin eftir fund konunnar með forstjóranum þar sem hún fór fram á launaleiðréttinguna.

Það er því  niðurstaða nefndarinnar að fyrirtækið hafi brotið lög um jafna meðferð á vinnumarkaði með því að mismuna konunni í launum vegna aldurs og með því að segja henni upp þegar hún fór fram á leiðréttingu á þessari mismunun.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Hrottaleg nauðgun á annan í jólum

Hrottaleg nauðgun á annan í jólum
Fréttir
Í gær

Landsnet hvetur starfsfólk til að tilkynna um lögbrot og ámælisverða háttsemi

Landsnet hvetur starfsfólk til að tilkynna um lögbrot og ámælisverða háttsemi
Fréttir
Í gær

Guðmundur Ingi ver framhaldsskólafrumvarpið – „Ekki stendur til að hætta að líta til námsárangurs“

Guðmundur Ingi ver framhaldsskólafrumvarpið – „Ekki stendur til að hætta að líta til námsárangurs“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Seyðfirðingar reiðir við Landsbankann – Banki í ríkiseigu eigi að þjónusta allt landið

Seyðfirðingar reiðir við Landsbankann – Banki í ríkiseigu eigi að þjónusta allt landið
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Gervigreindin aðstoðar 9 manna fjölskyldu Arnars við að lækka matarreikninginn – „Höfum við farið niður í 15–20 þúsund krónur á viku“

Gervigreindin aðstoðar 9 manna fjölskyldu Arnars við að lækka matarreikninginn – „Höfum við farið niður í 15–20 þúsund krónur á viku“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Zelenskyy heyrir Rússa hvísla þegar J.D. Vance öskrar

Zelenskyy heyrir Rússa hvísla þegar J.D. Vance öskrar
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Trump fjarlægði málverk af Obama og setti eitt af sjálfum sér í staðinn

Trump fjarlægði málverk af Obama og setti eitt af sjálfum sér í staðinn