Aukablað um Vigdísi fylgir Morgunblaðinu í dag í tilefni afmælisins þar sem má meðal annars finna kveðjur frá Höllu Tómasdóttur, núverandi forseta, Guðna Th. Jóhannessyni, fyrrverandi forseta og Kristrúnu Frostadóttur forsætisráðherra – og fleiri einstaklingum.
Þá má finna ávarp eftir Vigdísi sjálfa þar sem hún lýsir sinni heitustu ósk. Hún segir að rétt eins og andrúmsloftið sem við öndum að okkur hættir okkur til að líta á óspillta náttúru landsins og íslenska menningu sem sjálfsagðan hlut.
„En svo er um hvorugt. Þessi verðmæti geta glatast með andvaraleysi á skömmum tíma. Íslensk menning er málsvari friðar og frelsis og hefur verið vettvangur framúrskarandi bókmenntaafreka fámennrar þjóðar,“ segir hún en tekur svo fram að íslensk tunga sé hins vegar sálin í íslenskri menningu.
„Hún er verkfæri okkar til hugsunar og samskipta og áhald og efniviður þess fegursta sem íslenskar bókmenntir hafa upp á að bjóða. Ég á því enga ósk heitari en þá, að þjóðin beri gæfu til þess að standa vörð um náttúru landsins og íslenska tungu um ókomin ár.“