Þó skjálftinn hafi ekki verið ýkja stór, eða tæplega 3, fannst hann vel á svæðinu eins og lesa má í Facebook-hópi Íslendinga á svæðinu.
„Hávaðinn var svakalegur og þó nokkur víbringur,” segir einn Íslendingur sem staddur var í miðborg Torrevieja þegar skjálftinn reið yfir. „Fann hann greinilega,“ segir annar. „Svakalegar drunur,“ segir svo enn annar Íslendingur á svæðinu.
„Hélt við yrðum laus við þetta hér á Spáni,“ segir svo einn Íslendingur, væntanlega minnugur hamfaranna á Reykjanesskaganum þar sem eldgos og jarðskjálftar hafa gert íbúum lífið leitt. Annar segir síðan: „Hef ekki fundið svona sterkt fyrir Reykjanesskjálftunum. Enda erum við mjög nálægt upptökunum hér við Torrevieja.
„Glösin glömruðu í skápnum,“ sagði Íslendingur sem staddur er í San Miguel de Salinas.
Jarðskjálftar eru ekki óþekktir á þessu svæði þó þeir séu ekki mjög algengir eða öflugir. Tæp 200 ár eru síðan skjálfti, líklega um 6,6 að stærð, varð á svipuðum slóðum sem lagði nokkur þúsund heimili í rúst. Umræddur skjálfti varð þann 21. mars árið 1829 og er talið að hátt í 400 manns hafi látist.
Það voru ekki bara Íslendingar sem fundu vel fyrir skjálftanum því samkvæmt frétt Mail Online var fjölmörgum Bretum brugðið við skjálftann í gærkvöldi.
„Þetta var eitthvað annað. Allt húsið hristist, ég gat ekki sofnað aftur þar sem ég hélt að fleiri væru á leiðinni. Þetta var sterkasti og háværasti skjálftinn sem ég hef upplifað,“ segir einn.