Bolli Ófeigsson, eigandi skartgripaverslunarinnar Gullmiðju Ófeigs, við Skólavörðustíg, hefur birt myndir af átta manna gengi sem lét greipar sópa í versluninni í gær. Myndirnar birti hann í FB-hópnum „Hjóladót tapað, fundið eða stolið og fleira“. Hvetur hann hvern þann sem verður var við fólkið að hringja í lögreglu.
Bolli segir að í viðtali við DV að þjófarnir hafi borið sig afar fagmannlega að verki. Eitt par hafi fangað athygli afgreiðslukonunnar og á meðan inn komu inn í verslunina eitt af öðru. Myndefni úr eftirlitsmyndavélum sýnir þau stela gulli að andvirði nokkur hundruð þúsund krónur, þar á meðal heilum bakka af gullmunum.
„Við vitum ekki hvað þau tóku mikið en það var a.m.k. heill bakki af gulli. Þau voru átta. Fyrst koma tvö, eitt par, og mamma er að afgreiða í versluninni, þau gera hana alveg upptekna. Síðan koma tveir í viðbót og þarnæst bætast við einn í einu á nokkurra sekúndna fresti. Parið keypti og notaði American Express kort sem er pottþétt stolið enda þarftu ekki að pinna American Express. Mér er sagt að þetta sé þjófagengið frá Suðurlandi sem stal af ferðamönnum á Þingvöllum.“
Bolli segist oft hafa orðið fyrir þjófnaði áður en núna hafi hann fengið nóg og hafi ákveðið að birta myndirnar af fólkinu í FB-hópnum, aðallega til að vara við fólkinu. „Annaðhvort ekki að hleypa þeim inn í verslanirnar eða fylgjast mjög vel með þeim.“
Hann segir lögreglu vera að rannsaka málið. Áður fyrr hafi meintir gerendur verið handteknir en lítið komið út úr því. „Það hafa verið handtökur en við höfum aldrei fengið neitt til baka. Einu sinni var fólk tekið með armbönd á sér sem þau höfðu stolið úr búðinni þremur vikum áður. Ég sýndi lögreglu myndbönd sem sýndu að þau hefðu tekið armböndin úr búðinni en lögreglan gat ekki tekið þau af þeim af því það var ekki hægt að notast við myndböndin vegna persónuverndar. Ég spyr: Hvern er persónuvernd að vernda? Þjófa eða þá sem verða fyrir barðinu á þeim?“
Bolli segir að hingað til hafi þjófar sem rænt hafi úr verslun hans flestir verið frá Georgíu. Fólkið tali ávallt mjög lélega ensku, sé saman í hóp og vinni saman á þann hátt að einhverjir halda afgreiðslufólki uppteknu á meðan aðrir athafna sig í versluninni og stinga á sig verðmætum.