Maður á fimmtugsaldri, Dimitar Atanasov Koychev, hefur verið ákærður fyrir tilraun til manndráps vegna hnífaárásar við Tinda 2 á Kjalarnesi í byrjun ársins. Fyrirtaka er í máli hans í dag við Héraðsdóm Reykjavíkur.
Dimitar er gefið að sök að hafa lagt nokkrum sinnum til tveggja manna með hnífi að Tindum 2 aðfaranótt miðvikudagsins 1. janúar 2025, en þar stóð yfir gleðskapur. Flestir í samkvæminu voru starfsmenn hjá kjúklingaverskmiðjunni Matfugli.
Hnífurinn var með 11,5 cm löngu hnífsblaði. Er Dimitar sagður hafa reynt að svipta mennina lífi, í ákæru segir: „…en ákærði stakk X endurtekið í bakið, og Y í brjóstkassann og í kviðinn, með þeim afleiðingum að X hlaut nokkur 2-3 cm lífshættuleg stungusár á aftanverðum vinstri brjóstkassa með miklum blæðingum, áverka í gegnum húð á mótum brjóstkassa og kviðs, gat á milli rifja 8 og 9 vinstra megin og loft- og blóðbrjóst af völdum áverkanna og Y hlaut 2-3 cm lífshættuleg stungusár á vinstri brjóstkassa í gegnum brjóstvöðva fyrir neðan geirvörtu og á kvið.“
Fyrir hönd annars brotaþolans er krafist fjögurra milljóna króna í miskabætur en fyrir hönd hins brotaþolans fimm milljóna.