fbpx
Þriðjudagur 15.apríl 2025
Fréttir

Borgin gerir ýmsar athugasemdir við kjötvinnsluna í „græna gímaldinu“ en segir samt ekki þörf á umhverfismati

Jakob Snævar Ólafsson
Þriðjudaginn 15. apríl 2025 13:30

Húsið er afar þétt upp við fjölbýlishús við Árskóga.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Umsagnarferli um tilkynningu til Skipulagsstofnunar um uppsetningu kjötvinnslu í hluta hins afar umdeilda vöruhúss við Álfabakka í Reykjavík, sem stundum er kölluð „græna gímaldið“, lýkur í dag. Stofnunin mun síðan taka ákvörðun um hvort framkvæmdin þurfi að fara í umhverfismat. Meðal þeirra aðila sem hafa skilað inn athugasemdum eru Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur og skipulagsfulltrúi borgarinnar. Í báðum umsögnunum eru athugasemdir við hina fyrirhuguðu starfsemi sem og tilkynninguna sjálfa en niðurstaðan í báðum umsögnum er þó sú að ekki sé þörf á umhverfismati.

Í umsögn Heilbrigðiseftirlitsins segir meðal annars að það sé ekki rétt, sem komi fram í tilkynningunni, að kjötvinnsla Ferskra kjötvara sem nú er starfrækt í Síðumúla en á að flytja í nýja húsið upp í Álfabakka hafi starfað án vandkvæða í nágrenni við íbúðabyggð. Eftirlitið hafi tekið á móti kvörtunum vegna hávaða frá vöruafgreiðslu, losunar úrgangsgáma og frá kæliviftum/pressum utan á húsinu. Kvartanir vegna ónæðis hafi helst verið bundnar við næturtímann.

Heilbrigðiseftirlitið gerir einnig athugasemdir við þá umsögn skipulagsfulltrúa borgarinnar að starfsemi stórrar kjötvinnslu eins og hér um ræði teljist vera léttur iðnaður. Slík skilgreining komi hvergi fram í lögum eða reglugerðum. Heilbrigðiseftirlitið telur þvert á móti starfsemina vera mjög umfngsmikla:

„Hún getur haft í för með sér ónæði, mengun og álag á fráveitu.“

Enn fremur segir eftirlitið að ekki komi skýrt fram í tilkynningunni hvert umfang kjötvinnslunnar verði, hvað varðar magns kjöts sem vinna eigi.

Hávaði

Þegar kemur að mögulegri hávaðamengun frá kjötvinnslunni þá horfir Heilbrigðiseftirlitið helst til kæliviftu og kælipressu í vinnslunni. Frá slíkum búnaði berist stöðugur hávaði. Gert sé ráð fyrir hljóðvegg í kringum þennan búnað í kjötvinnslunni við Álfabakka en eftirlitið segist hafa áhyggjur af því að búnaðurinn eigi að standa það hátt á þaki vinnslunnar að hávaðamengun geti mögulega borist yfir hljóðvegg sem reisa eigi. Meðhöndlun og flutningur á úrgangi geti einnig valdið hávaða til að mynda með hurðaskellum og þá ekki síst á nóttunni þegar lítið sé um annan hávaða á svæðinu. Hávaði verði einnig frá umferð og vöruafgreiðslu og töluvert álag verði á svæðinu vegna þess umfangs umferðar sem gert sé ráð fyrir. Mögulegt sé þó að gríða til mótvægisaðgerða.

Heilbrigðiseftirlitið segir að litlar líkur verði á lyktarmengun frá kjötvinnslunni ekki síst þar sem ekki sé gert ráð fyrir reykofnum og heldur ekki suðu og eldun matvæla. Hægt sé að grípa til ráðstafana til að koma í veg fyrir lyktarmengun frá úrgangsgámum og loftræstitúðum.

Þegar kemur að loftmengun frá umferð í nærumhverfi hússins telur eftirlitið að hún muni eins og áður einkum koma frá Reykjanesbraut.

Heilbrigðiseftirlitið lýsir áhyggjum af því að aukin þungaumferð á svæðinu hafi áhrif á öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda og minnir á að húsið liggi að íþróttasvæði ÍR sem mikill fjöldi barna og unglinga fari um.

Í umsögninni er einnig bent sérstaklega á fráveitumál. Huga þurfi að því hvort fráveitukerfi muni ráða við hið aukna álag sem starfsemi kjötvinnslunnar muni hafa í för með sér. Athuga þurfi einnig sérstaklega hreinsiefni og fitugildrur.

Ekkert mat

Heilbrigðiseftirlitið segir að lokum í sinni umsögn að mögulegt sé að bregðast við öllum þeim atriðum sem líkleg séu til að valda umhverfisáhrifum með kröfum í starfsleyfi eða skráningu og með ríkari mengunarvörnum. Eftir standi aukin umferð um svæðið sem ekki sé hægt að komast hjá. Þó er það mat Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur að ekki séu líkur á að kjötvinnslan valdi umtalsverðum umhverfisáhrifum og þar með þurfi hún ekki að vera háð umhverfismati.

Í umsögn skipulagsfulltrúa borgarinnar er vitnað all ítarlega í aðalskipulag Reykjavíkur og lögð áhersla á að það geti aldrei verið tæmandi þegar kemur að upptalningu á hvaða starfsemi geti verið heimil og svarar fulltrúinn þar með gagnrýni á fyrri umsögn hans um kjötvinnsluna en skipulagsfulltrúinn segir að þá hafi upplýsingar um hvernig kjötvinnslan ætti nákvæmlega að vera ekki hafa legið fyrir.

Meðal þess sem skipulagsfulltrúinn bendir á er að fyrirhugaður gólfflötur kjötvinnslunar, 2.974 fermetrar, sé nokkuð yfir viðmiðunarmörkum laga um umhverfismat, sem séu 1.000 fermetrar.

Skipulagsfulltrúinn telur ljóst að starfsemin samræmist aðalskipulagi borgarinnar og að hún valdi óverulegum umhverfisáhrifum þó hún eigi að vera nokkuð umfangsmikil. Gæta þurfi þó vel að hönnun og útfærslu starfseminnar og mögulegum umhverfisáhrifum.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Íslendingum á Costa Blanca brugðið: „Glösin glömruðu í skápnum“ – „Svakalegar drunur“

Íslendingum á Costa Blanca brugðið: „Glösin glömruðu í skápnum“ – „Svakalegar drunur“
Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Harmleikurinn í Garðabæ: Eiginkonan hringdi í Neyðarlínuna eftir að maðurinn hneig niður

Harmleikurinn í Garðabæ: Eiginkonan hringdi í Neyðarlínuna eftir að maðurinn hneig niður
Fréttir
Í gær

Friðrik Þór svarar fyrir sig: „Verður að teljast nokkurs konar met í sjálfhverfu“

Friðrik Þór svarar fyrir sig: „Verður að teljast nokkurs konar met í sjálfhverfu“
Fréttir
Í gær

Hvatt til sérstakrar varkárni á tveimur vinsælum áfangastöðum á Reykjanesi

Hvatt til sérstakrar varkárni á tveimur vinsælum áfangastöðum á Reykjanesi
Fréttir
Í gær

Mannslátið á föstudag – Málið sagt flókið og viðkvæmt

Mannslátið á föstudag – Málið sagt flókið og viðkvæmt
Fréttir
Í gær

Umdeildur skólastjóri hættir: Segist hafa orðið fyrir „persónulegu einelti“ í starfi

Umdeildur skólastjóri hættir: Segist hafa orðið fyrir „persónulegu einelti“ í starfi