Tuttugu mál frá áramótum hafa komið inn á borð Lögreglunnar á Suðurlandi vegna vasaþjófnaðar á Þingvallasvæðinu og önnur 20 mál hafa ratað inn á borð Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vegna vasaþjófnaðar á helstu ferðamannasvæðum í Miðborginni, Skólavörðustíg, Skólavörðuholti og Laugavegi.
„Þetta er skipulögð brotastarfsemi,“ segir Ásmundur Rúnar Gylfason, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, en hann ræddi þessi mál á Bylgjunni í dag.
Ásmundur segir að skipulagðir glæpahópar geri út fólk sem komi hingað til lands og dveljist hér um stuttan tíma til að stela og fari síðan af landi brott. Oftast eru grunaðir látnir lausir að lokinni yfirheyrslu og geta þá haldið brotum sínum áfram. Segir Ásmundur hins vegar að hægt sé að beita ákvæðum um síbrotagæslu ef viðkomandi er grunaður um mörg brot.
Lögreglan á Suðurlandi hefur gert átak til að sporna við vasaþjófnaði og aðspurður sagði Ásmundur að óeinkennisklæddir lögreglumenn væru á þessum helstu ferðamannasvæðum í miðborginni en því miður hefði þeim ekki tekist að hafa hendur í hári vasaþjófa. Hann segir að algengar aðferðir séu að bjóðast til að taka myndir af ferðamönnum og fara síðan í bakpoka þeirra er þeir leggja þá frá sér. Einnig sé læðst aftan að fólki og farið í bakpoka þess.
„Þau eru kannski fyrst og fremst að sækjast eftir veskjum og taka þá kreditkort og peningaseðla,“ sagði Ásmundur og greindi frá því að tekið hefði verið út af stolnu kreditkorti ferðamanns í verslun í Reykjavík fyrir tæpa milljón króna.
„Ef fólk verður vitni að einhverju svona að þá tilkynna til lögreglu um leið, bara staðsetningu, og við munum reyna að bregðast við eins hratt og við getum því við viljum reyna að hafa hendur í hári þessa fólks,“ segir Ásmundur og hvetur jafnframt ferðaþjónustufyrirtæki til að upplýsa viðskiptavini sína um hvernig þeir geti helst forðast að verða fyrir vasaþjófnaði.
Hann segir jafnframt: „Þetta er ekki góð þróun en við reynum hvað við getum til að rannsaka þessu mál.“
Staðfesti Ásmundur jafnframt í viðtalinu að allir sem hefðu orðið fyrir vasaþjófnaði sem tilkynntur hefur verið til lögreglu undanfarna mánuði væru erlendir ferðamenn.