Hópur unglinga réðst á 49 ára gamlan mann í íbúðahverfi á Gran Canaria á sunnudagsmorgun. Íbúi í hverfinu blandaði sér í átökin og við það kom upplausn í unglingahópinn. Segir maðurinn sem greip inn í að unglingarnir hefðu mögulega getað drepið árásarþolann ef atferli þeirra hefði ekki verið stöðvað.
Canarian Weekly greinir frá þessu.
Hópur íbúa í hverfinu fundu manninn þungt haldinn eftir að unglingahópurinn hafði yfirgefið vettvanginn. Maðurinn skýrði þeim frá því að unglingarnir hafi byrjað á því að áreita hann með orðum. Er hann sneri sér að þeim var hann kýldur í andlitið. Hann var síðan dreginn um 100 metra og sparkað og kýlt í hann á leiðinni. Maðurinn var með slæma áverka víða um líkamann og á höfði og auga.
Einn árásarmannanna er 15 ára og var handtekinn á vettvangi. Hann er sagður hafa játað að árásin hafi verið skipulögð með það í huga að birta myndskeið af henni á netinu. „Þetta er að trenda núna,“ sagði hann.
Aðrir sem tóku þátt i árásinni hafa enn ekki verið handteknir en lögreglan vinnur höfðum höndum að því að klófesta alla árásamennina. Atvikið vekur upp spurningar um óæskileg áhrif samfélagsmiðla á ungmenni og þá sjúklegu háttsemi að birta ofbeldisefni á netinu til að vekja á sér athygli.