Maður sem lést á heimili sínu í Garðabæ á föstudag var áttræður að aldri. Dóttir hans, 28 ára gömul kona, er grunuð um að hafa orðið föður sínum að bana og hefur hún verið úrskurðuð í gæsluvarðhald fram á miðvikudag.
Maðurinn var þungt haldinn er viðbragðsaðilar komu á heimilið á föstudagsmorgun og lést hann á sjúkrahúsi skömmu síðar. Dóttir mannsins á lögheimili í húsinu og var hún stödd þar. Var hún handtekin.
Fjölskyldan er talin vel efnuð og með engin tengsl við undirheima eða afbrot.
Fólkið býr í glæsilegu einbýlishúsi í Garðabæ. Nágrannar fjölskyldunnar sem DV hefur leitað til hafa ekki viljað tjá sig um málið vegna náinna tengsla og hve viðkvæmt málið er.
Eins og DV greindi frá fyrr í dag miðar rannsókn lögreglu í málinu vel. Elín Agnes Eide Kristínardóttir, yfirlögregluþjónn á rannóknarsviði lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir málið vera flókið og viðkvæmt, „fjölskyldulega séð,“ eins og hún orðar það.
Í tilkynningu um málið sem lögregla sendi frá sér í gær segir:
„Það var snemma á föstudagsmorgun sem lögreglu barst tilkynning um meðvitundarlausan karlmann í heimahúsi á höfuðborgarsvæðinu. Viðbragðsaðilar héldu strax á staðinn, en karlmaðurinn var þungt haldinn þegar að var komið. Hann var fluttur á slysadeild og lést þar síðar um daginn. Konan, sem er í gæsluvarðhaldi, var handtekin í fyrrnefndu húsi.“
Hefur þú upplýsingar um málið? Vinsamlega sendu póst á ritstjorn@dv.is. Fullur trúnaður.