fbpx
Þriðjudagur 15.apríl 2025
Fréttir

Magga Frikka laut í gras fyrir Icelandair

Ritstjórn DV
Mánudaginn 14. apríl 2025 12:47

Margrét Friðriksdóttir.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Icelandair hefur verið sýknað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í skaðabótamáli Margrétar Friðriksdóttur gegn félaginu. Margréti var vísað úr flugvél félagsins á Keflavíkurflugvelli árið 2022 en hún átti bókað flug með félaginu til Þýskalands. Var henni að sögn vísað úr vélinni fyrir að fara ekki eftir grímuskyldu, vegna ágreinings um hvort taska sem Margrét var með í för mætti fara með um borð í farþegarýmið sem handfarangur og hegðunar hennar vegna þessara ágreiningsmála við áhöfn vélarinnar. Margrét fullyrti að hún hefði ekki brotið grímuskylduna og að nægt pláss hafi verið fyrir töskuna en í henni var upptökubúnaður sem hún ætlaði að nota en hún var á leið til Rússlands til að afla frétta. Margrét segir að dómnum verði áfrýjað.

Margrét krafðist um 20 milljóna króna í miskabætur.

Á meðan réttarhöldunum stóð sagðist Margrét meðal annars hafa tekið strax eftir því á landganginum að ákveðin flugfreyja hefði verið að fylgjast með henni nánast um leið og hún kom um borð hafi henni verið tekið af fjandskap af áhöfn vélarinnnar. Fullyrti hún að ekkert tilefni hefði verið til þess að vísa henni frá borði.

Réttarhöld hafin í máli Möggu Frikka gegn Icelandair – „Þá ferð þú ekki með þessu flugi“

Flugfreyja og flugstjóri um borð í umræddri flugvél sögðu aftur á móti að Margrét hafi greinilega verið drukkin og verið mjög æst og hafi þar að auki gert tilraun til að komast inn í flugstjórnarklefann.

Yfirflugfreyja segir Margréti hafa verið drukkna og mjög æsta – „Margrét, ætlarðu að eyðileggja orðspor þitt?“

Bar að hlýða

Í niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur segir að samkvæmt framburði Margrétar sjálfrar og vitna hafi ákvörðun um að taskan mætti ekki fara um borð í farþegarýmið verið tekin af starfsmanni við landgang áður en hún og samferðafólk hennar hafi komið um borð. Margréti hafi ekki tekist að sýna fram á að sú ákvörðun hefði verið ólögmæt. Það skipti ekki máli hvort taskan hafi komist í handfarangursrými í fyrri ferðum. Hugmyndir og ágiskanir um stærð töskunnar breyti engu þar um sem og framlögð ljósmynd af töskunni en ekki liggi fyrir hvort sú mynd hafi verið tekin um borð í sams konar flugvél og í þessu máli og heldur ekki hvort að í töskunni hafi verið sams konar farangur og í umrætt sinn.

Vísar dómurinn til ákvæða laga um loftferðir um að farþegum beri skylda til að hlýða fyrirmælum flugstjóra og flugliða í loftfari er varði öryggi um borð og góða hegðun og reglu. Samkvæmt skýrslum fyrir dómi sé ljóst að Margrét hafi ekki farið eftir þessu ákvæði.

Segir dómurinn að það sé skylda flugstjóra og flugliða að gæta að öryggi um borð og í því geti ekki falist skylda til að fara eftir óskum einstakra farþega eins og í þessu tilviki að fá að hafa í farþegarýminu töskuu sem þegar hafi verið ákveðið að ætti að fara í farangursrýmið. Hagsmunir allra farþega gangi framar hagsmunum einstakra farþega. Vísar dómurinn einnig til framburðar flugfreyju fyrir dómi sem sagði Margréti hafa verið ofbeldisfulla í orðum og framburðar flugstjóra sem sagði hana hafa gert sig líklega til að komast inn í flugstjórnarklefann. Minnt er á ákvæði loftferðarlaga um að flugstjóri hafi vald til þess að vísa farþega úr flugi og að það hafi verið gert í þessu tilfelli á grundvelli öryggissjónarmiða og hin endanlega ákvörðun um að vísa Margréti úr vélinni hafi verið hans. Ekkert hafi komið fram sem hreki framburð flugstjórans.

Það er því niðurstaða dómsins að Margréti hafi ekki tekist að sýna fram á að brottvísun hennar úr flugvélinni hafi verið ólögleg og saknæm. Segir enn fremur að upphæð bótakröfu hennar hafi ekki verið rökstudd með neinum hætti. Icelandair var því sýknað af kröfum Margrétar í málinu.

Dóminn í heild er hægt að nálgast hér.

Uppfært

Í stuttu samtali við DV staðfestir Margrét að dómnum verði áfrýjað til Landsréttar. Vill hún meina að Héraðsdómur Reykjavíkur hafi skautað framhjá öllum viðbótargögnum sem hún og lögmaður hennar hafi lagt fram í málinu og segir lögmanninn telja dóminn mjög ósanngjarnan.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Íslendingum á Costa Blanca brugðið: „Glösin glömruðu í skápnum“ – „Svakalegar drunur“

Íslendingum á Costa Blanca brugðið: „Glösin glömruðu í skápnum“ – „Svakalegar drunur“
Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Harmleikurinn í Garðabæ: Eiginkonan hringdi í Neyðarlínuna eftir að maðurinn hneig niður

Harmleikurinn í Garðabæ: Eiginkonan hringdi í Neyðarlínuna eftir að maðurinn hneig niður