fbpx
Þriðjudagur 15.apríl 2025
Fréttir

Lungnasjúklingur biðlar til Alþingis um að segja nei við hunda- og kattafrumvarpi Ingu – „Vandamálið er þegar við erum neydd til að þola dýrin“

Ritstjórn DV
Mánudaginn 14. apríl 2025 12:30

Inga Sæland

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Frumvarp Ingu Sæland félags- og húsnæðismálaráðherra til breytinga á lögum um fjöleignarhús, sem kveður á um að ekki þurfi lengur samþykki annarra eigenda íbúða í fjöleignarhúsi til að halda hunda eða ketti í viðkomandi húsi eins og nú er, er nú til meðferðar á Alþingi. Meðal þeirra sem sent hafa inn umsögn um frumvarpið er kona sem þjáist af lungnasjúkdómi og ofnæmi fyrir dýrum af þessu tagi. Biðlar hún til þingheims um að hafna frumvarpinu en að öðrum kosti banna lausagöngu katta sem sé eitt helsta vandamálið fyrir fólk í sams konar stöðu og hún er.

Konan býr í fjöleignarhúsi og segist auk lungnasjúkdómsins þjást af ofnæmi fyrir hundum og köttum og fleiri tegundum af loðnum dýrum. Hún segir að þrátt fyrir núgildandi ákvæði laga um fjöleignarhús, um samþykki fyrir hunda- og kattahaldi, verða fyrir töluverðum óþægindum af því. Telur hún að ef frumvarpið nái fram að ganga muni óþægindin aukast enn meira og lífsgæði hennar rýrna verulega.

Konan segist helst finna fyrir óþægindunum vegna lausagöngu katta. Oftar en einu sinni hafi hún sest á pallinn fyrir utan íbúð sína og fengið heiftarlegt ofnæmiskast eftir að kettir hafi gert sig heimakomna í húsgögnum sem þar séu. Það hafi ekki dugað til að taka inn alla púða og teppi. Í húsinu sem hún búi í sé kattahald bannað en mikið af köttum sé í nágrenninu.

Skemmdarverk

Konan segist hafa reynt að stunda garðyrkju í garði við íbúðina en það sé nánast ómögulegt þar sem kettir geri þarfir sínar í blómabeð og eyðileggi plöntur fyrir henni:

„Ég hef aldrei fengið bætur frá kattaeigendum, þrátt fyrir að hafa sýnt myndband af kettinum þeirra skíta og brjóta plöntur sem eru að koma upp úr jörðinni á vorin. Ég hef engin úrræði. Fólk sem á ketti má bara láta kettina sína gera hvað sem er í mínum garði og ég get ekkert gert. Hvernig ráðherranum sem leggur þetta frumvarp fram dettur í hug að gera það, er mér óskiljanlegt.“

Konan minnir á að mikið er um ketti á vergangi, sem eigendur hafa misst áhugann á að hugsa um.

Hún segist áður hafa tekið ofnæmislyf en treysti sér ekki lengur til þess vegna aukaverkana.

Konan segist ekki frekar en flestir ofnæmis- og lungnasjúklingar vera á móti dýrahaldi almennt en málið sé bara ekki svo einfalt:

„Vandamálið er þegar VIÐ erum neydd til að þola dýrin sem við samkvæmt læknisfræðilegri skilgreiningu hreinlega þolum ekki. Það er ekki illvilji, það er sjúkdómur sem er afskaplega óþægilegur og erfitt að eiga við. Þetta væri ekkert vandamál ef fólk gæti einfaldlega hugsað um dýrin sín sjálft.“

Innikettir

Konan segist alveg tilbúinn að samþykkja hunda- og kattahald í húsinu sem hún býr í ef tryggt sé að dýrin séu ekki á þvælingi um sameignina. Hún segir að í raun verði engin úrræði til að framfylgja banni við því að fólk sem hirði ekki um sín dýr haldi hunda eða ketti í fjöleignarhúsum.

Hún segir að ef þingheimur vilji ganga svona langt við að leyfa hunda- og kattahald þurfi samhliða að banna lausagöngu katta:

„Það eru bara margir sem hafa vanið sína ketti á að vera í bandi og ég er nokkuð viss um að ef lausaganga katta væri bönnuð og því banni væri framfylgt þá myndi ágreiningi og vandræðum vegna gæludýraeignar fækka til muna.“

Hvetur konan að lokum Alþingi til að hafna frumvarpinu þar til ásættanleg lausn finnist fyrir fólk sem þjáist af lungnasjúkdómum.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Vigdís fagnar 95 ára afmæli í dag – Á sér enga ósk heitari en þessa

Vigdís fagnar 95 ára afmæli í dag – Á sér enga ósk heitari en þessa
Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Íslendingum á Costa Blanca brugðið: „Glösin glömruðu í skápnum“ – „Svakalegar drunur“

Íslendingum á Costa Blanca brugðið: „Glösin glömruðu í skápnum“ – „Svakalegar drunur“
Fréttir
Í gær

Mannslátið á föstudag – Málið sagt flókið og viðkvæmt

Mannslátið á föstudag – Málið sagt flókið og viðkvæmt
Fréttir
Í gær

Umdeildur skólastjóri hættir: Segist hafa orðið fyrir „persónulegu einelti“ í starfi

Umdeildur skólastjóri hættir: Segist hafa orðið fyrir „persónulegu einelti“ í starfi