Þann 8. apríl var dómur kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur yfir manni sem ákærður var fyrir nauðgun og stórfellt brot í nánu sambandi. Var honum gefið að sök að hafa hafa föstudagskvöldið 26. nóvember árið 2021, á þáverandi heimili sínu og þáverandi sambýliskonu sinnar, beitt konuna ofbeldi og ólögmætri nauðung. Hann hafi án samþykkis konunnar haft samræði eða önnur kynferðismök við hana, á sérstaklega sársaukafullan og meiðandi hátt. Í ákæru segir „…en ákærði greip í hendur A og þrýsti henni með andlitið upp að vegg, en ákærði stóð fyrir aftan hana og hélt henni fastri, tók fætur hennar í sundur og stakk getnaðarlim sínum eða fingri í leggöng hennar, en ákærði skeytti því engu þótt A streyttist á móti og bæði hann ítrekað um að hætta, allt með þeim afleiðingum að hún hlaut nokkra marbletti á báðum framhandleggjum, þar af einn um 6 sm að stærð á hægri framhandlegg og annan um 2,5 sm að þvermáli á vinstri, sár á vísifingri vinstri handar, marbletti og dreifð eymsli og bólgur á lærum, ásamt eymslum hægra megin í hálsi og í miðlínu hálshryggjar, í úlnliðum og í vinstri olnboga, en með framangreindri háttsemi sinni ógnaði ákærði á alvarlegan hátt heilsu og velferð A.“
Í texta dómsins kemur fram að hinn 27. nóvember 2021 barst lögreglu tilkynning um mögulegt heimilisofbeldi í Reykjavík. Tilkynnandi sagði mikil læti berast frá nágrönnum sínum, öskur, skellir og dynkir. Lögreglumenn fóru á vettvang og hittu fyrir brotaþola sem var í miklu uppnámi og grét. Hún sagði kærasta sinn, ákærða, vera farinn af staðnum. Á heimilinu var einnig dóttir hennar og móðir ákærða, sem var inni í einu svefnherberginu og talaði hvorki íslensku né ensku. Vinkona brotaþola kom á vettvang og var brotaþola til halds og trausts. Erfitt reyndist að fá heildstæðan og greinargóðan framburð frá brotaþola um það sem hafði gerst sökum tungumálaörðugleika, en fram kom hjá henni að ákærði væri oft ofstopafullur og ógnandi við hana og dóttur hennar og hefði verið það allt frá því að samband þeirra hefði hafist ári fyrr. Þennan dag hefði hann orðið reiður vegna skilaboða sem hún hefði fengið frá vinkonu sinni um að hittast á kaffihúsi. Hann hefði bannað henni að fara og tekið utan um hana og hrist harkalega, auk þess sem hann hefði gert það sama við dóttur hennar. Dóttir brotaþola virtist skelkuð og sagði hún að ákærði hefði oft verið vondur við sig og móður sína. Þegar rætt var við móður ákærða með aðstoð túlks kvaðst hún hafa verið inni í herberginu sínu allan tímann og ekkert hafa séð. Þá kvaðst hún ekki ætla að ræða frekar við lögreglu vegna málsins.
Fyrir dómi lýsti konan því hvernig maðurinn hefði nauðgað henni inni á baðherbergi eftir að hún hafði lokið sturtu, en hún hafði sagt honum að hún vildi ekki stunda kynlíf með honum. Neytti maðurinn aflsmunar við að koma fram vilja sínum við konuna.
Að hennar sögn hafði hann oft beitt hana ofbeldi áður, bæði kynferðisofbeldi og barsmíðum. Fyrir dóminn var lögð fram hljóðupptaka úr síma af samtali fólksins þar sem maðurinn gengst við kynferðisofbeldinu þó að hann sé þar ósammála henni um verknaðarlýsingu. Segist hann hafa sett putta inn í hana en ekki getnaðarlim og má ráða af því að honum þyki það í lagi. Eftirfarandi endurrit af samtalinu er birt í dómnum, M er þar hinn ákærði og K er brotaþoli:
„M: En ég setti hann ekki inn með valdi, setti ég hann inn ?
K: Svo snerir þú mér við og já (….) var það ekki með valdi ?
M: En hvað puttann ? (….) en ég setti ekki typpið inn, þetta var putti.
K: En af hverju gerðirðu það með valdi ?
M: (….)
K: Ég myndi finna það ef þetta væri putti.
M: Það var í alvöru putti, ég setti bara puttann inn.
K: (…) Þú snerir mér með valdi svona að aftan, var mig að dreyma ?
M: Þú veist, ég vildi sýna þér hver ræður hér.
K: Hver ræður hér, þú mátt ekki sýna með þessum hætti hver ræður hér.
M: Ég veit en bara.
23
K: Þegar ég segi nei, þá þýðir það nei.
M: Þá sleppti ég þér er það ekki ? (…) ég setti puttann í þig.“
Maðurinn var sakfelldur fyrir brotið samkvæmt ákæru og dæmdur í þriggja ára fangelsi. Jafnframt var hann dæmdur til að greiða konunni 2,5 milljónir króna í miskabætur.
Dóminn má lesa hér.