DV greindi frá málinu síðastliðinn þriðjudag en í grein á Vísi gagnrýndu fyrrnefndir kennarar, þau Steven Meyers, Guðrún Elsa Bragadóttir, Ása Helga Hjörleifsdóttir, Brúsi Ólason, Erlendur Sveinsson og Heather Millard, ummæli sem Friðrik Þór lét falla í viðtali á Samstöðinni fyrir skemmstu.
Sjá einnig: Láta Friðrik Þór heyra það og segja hann hafa gengið of langt
Skökk mynd dregin upp
Friðrik Þór gagnrýndi þar námið við Listaháskóla Íslands og sagði meðal annars að það hefðu verið „mistök“ og „hreint skemmdarverk“ að stofna deildina í Listaháskólanum. Þá gagnrýndu kennarar að hann hefði kallað námið „bara eitthvað rusl“.
„Undir venjulegum kringumstæðum myndum við láta slíkar ákúrur sem vind um eyru þjóta, en í ljósi þess hversu skakka mynd þú dregur upp, virtur kvikmyndaleikstjóri sem ætla má að nemendur okkar líti upp til, þykir okkur ástæða til þess að svara og leiðrétta nokkrar af þeim rangfærslum sem þú setur fram um deildina okkar og stöðu íslenskrar kvikmyndamenntunar,“ sögðu kennararnir en fyrri frétt má lesa hér.
Í grein sinni bentu þau einnig á að deildin sem þau starfa við hafi verið stofnuð eftir langa baráttu fagfólks um íslenska kvikmyndasamfélaginu fyrir því að boðið yrði upp á háskólanám í kvikmyndagerð hér á landi sem myndi uppfylla ströngustu gæðakröfur.
Þá sögðu kennararnir deildina eiga í víðtæku samstarfi við kvikmyndaskóla á Norðurlöndunum og nemendum standi til boða starfsnám og styttri námsferðir erlendis.
Þau telji Friðrik Þór, miðað við orð hans í viðtalinu, búa yfir lítilli þekkingu á námi í kvikmyndagerð við Listaháskólann.
Heimsmet í sjálfhverfu
Friðrik Þór svarar þessari gagnrýni í löngu máli í aðsendri grein á Vísi í morgun þar sem fyrirsögnin er: Heimsmet í sjálfhverfu. Þar þakkar hann fyrir tilskrifin og kveðst fagna því að þau séu tilbúin að ræða um málefni kvikmyndamenntunar á Íslandi.
„Það vekur hins vegar athygli mína að þið skulið ekki minnast á tilefni orða minna. Í langri grein ykkar – sem öll fjallar um hvað þið eruð frábær – þá minnist þið ekki einu orði á samhengið, sem er að starfsgrundvöllur einnar mikilvægustu stofnunar íslensks kvikmyndaiðnaðar síðustu áratuga, Kvikmyndaskóla Íslands, er í bráðahættu. Reyndar minnist þið ekki á skólann einu orði sem verður að teljast nokkurs konar met í sjálfhverfu. Ekki hvað síst af því öll hafið þið starfað við Kvikmyndaskólann og sum ykkar eruð útskrifuð þaðan,“ segir Friðrik Þór meðal annars.
„Svo virðist sem þið viljið reyna að sannfæra lesendur með bréfi til mín, að þið séuð rétta fólkið, nánast útvalin, til að sjá um kvikmyndamenntun á Íslandi. Ennþá hefur enginn þó útskrifast úr þessu námi sem þið kynnið, en þið virðist sannfærð um að þið séuð mikilfengleg og engin þörf sé að starfrækja aðra kvikmyndaskóla.”
Friðrik Þór fer svo yfir hvað þetta þýði fyrir Kvikmyndaskólann.
„Hafa verður í huga að með stofnun þessarar fámennu kvikmyndadeildar við Listaháskólann, þá var námslánarétturinn tekinn af nemendum Kvikmyndaskóla Íslands og þar með rekstrargrundvöllur skólans frá árinu 2003. Þrátt fyrir að niðurstaða óháðs alþjóðlegs sérfræðingahóps hafi staðfest að við Kvikmyndaskólann færi nám á háskólastigi, sem tryggt hefði námslánahæfi á ný, þá hefur ráðuneytum ekki tekist að afgreiða þessa færslu skólans milli skólastiga. Afleiðingin er að fjöldabrottfall varð úr skólanum síðastliðið haust og aftur nú á vormisseri. Tekjumissir af þessu brottfalli, ásamt því að ekki hefur tekist að ná samningum við stjórnvöld um útgreiðslur til skólans af eyrnamerktum fjárlagalið skólans, hefur síðan leitt til gjaldþrotameðferðar Kvikmyndaskólans.“
Friðrik Þór gengur svo langt að líka Kvikmyndaskólanum við kínverska hraðlest en kvikmyndadeild Listaháskóla Íslands við Trabant. Bendir hann á að síðastliðin 15 ár hafi skólinn skilað með reglubundnum hætti að meðaltali 45 útskrifuðum nemendum á ári úr fjórum deildum skólans. Þá sýni kannanir að mjög hátt hlutfall skilar sér í greinina og starfar þar áfram.
Hann endar svo grein sína á að segja að Kvikmyndadeild Listaháskólans og þeir sem þar starfa eigi alveg eftir að sanna sína stöðu á meðan sannað er að Kvikmyndaskóli Íslands sé einn hagkvæmasti listaskóli íslensks skólakerfis og veiti nú þegar hágæða menntun.
„Ef ætlunin er að byggja árangur sinn á að halda öðrum niðri, þá verður að leiðrétta þá stefnu því hún gagnast engum, og síst samfélaginu. Væri ekki réttara að beina spurningum til stjórnvalda um þá aðför að kvikmyndamenntun í landinu sem hefur verið gerð með því að frysta fjármuni til Kvikmyndaskólans án haldbærra útskýringa. Verður leiðbeinendum Kvikmyndadeildar LHÍ ekki um við að sjá slíka meðferð á kvikmyndamenntun í landinu? Ég bið alla málsmetandi menn að gæta þess vel að farið verði rétt að viðurkenningum og samþykktum á Kvikmyndaskóla Íslands. Og það þarf að bregðast skjótt við.”