fbpx
Þriðjudagur 15.apríl 2025
Fréttir

Björk var farin að njósna um dóttur sína til að geta bjargað henni – „Hann nánast drap hana“

Ragna Gestsdóttir
Mánudaginn 14. apríl 2025 11:30

Mæðgurnar Björk og Margrét. Mynd: RÚV.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Þegar ég sá myndböndin fékk ég hálfpartinn taugaáfall. Þetta var svakalegt, ég vissi að hún var búin að vera í einhvers konar ofbeldissambandi en ég bjóst ekki við að þetta væri svona alvarlegt. Ég fékk að sjá þetta og þá fékk ég reality check og hugsaði: guð minn almáttugur, þetta er svona hryllilega alvarlegt. Hann nánast drap hana. Í orðsins fyllstu merkingu.“

Þannig lýsir Björk Erlingsdóttir stundinni þegar hún horfði á myndband þar sem dóttir hennar, Margrét Mjöll Sveinsdóttir er beitt heimilisofbeldi. Lögfræðingur dótturinnar bauð Björk að horfa á myndbandið og taldi að hún yrði að sjá það til að skilja ástandið á heimilinu. Björk segir dóttur sína hafa reynt að fela ofbeldið.

„En hún passaði sig að láta ekki mömmu sína verða vara við eitt né neitt. Það er viðkvæmasti punkturinn hennar, það er mamma hennar og bróðir hennar. Svo verður þetta verra og verra og verra. Ég kemst svo að þessu bara í gegnum lögfræðinginn hennar. Það var ofboðslegt sjokk,“ segir Björk sem segir það hrylling að horfa upp á barnið sitt í ofbeldissambandi. 

Fólk þarf að átta sig á alvarleika heimilisofbeldis

Mæðgurnar sögðu sögu sína í söfnunarþættinum Byggjum nýtt Kvennaathvarf á RÚV. Í vikunni fyrir þáttinn sagði Margrét sögu sína á Bylgjunni og í fréttum Stöðvar 2 þar sem birt var myndband af ofbeldinu. „Það er eitt að heyra og annað að sjá. Fólk þarf bara aðeins að opna augun fyrir þessu. Við erum alltof tilbúin til að loka augunum og líta fram hjá. Það á enginn að þurfa að lifa við ofbeldi.“ segir Margrét.

Hún segir að það hafi ekki verið auðvelt að sýna myndbandið en hún hafi talið það mikilvægt til að fólk áttaði sig á alvarleika heimilisofbeldis. „Fái birtingarmynd af því hvernig heimilisofbeldi er í raun og veru þó við séum á litla Íslandi. Þetta er ekkert svona saklaust. Þetta er grafalvarlegt.“ 

Farin að njósna um dótturina

„Í fyrra ofbeldissambandinu hennar þá datt ég bara út af vinnumarkaði. Ég varð óvinnufær. Svaf ekki, borðaði ekki. Ég missti mörg kíló. Yngri bróðir hennar fékk taugaáfall, það fannst mér rosalega erfitt að ganga í gegnum. Ég var orðin svolítið sjóaðri í seinna skiptið með hana. Mig var farið að gruna að það væri eitthvað í gangi. Hann var búinn að beita hana ofbeldi áður. Ég var búin að vera að reyna benda Margréti á það en hún lokaði bara augunum fyrir því,“ segir Björk.

„Ég var farin að keyra fram hjá henni, tékka á gluggunum hennar. Fylgjast með símanum hennar, hvort hún væri að nota Instagram eða Facebook. Ég var alls staðar að njósna. Athuga hvort ég gæti ekki einhvers staðar bjargað henni eða komið henni til hjálpar.“

„Það tekur enn þá á. Það var mjög erfitt fyrir mig að horfa á þetta,“ segir Björk um myndbandið. Hún segir mikilvægt að aðstandendur leiti sér aðstoðar líka þótt hún hafi enn ekki gert það.

„Auðvitað þarf maður að gera það. Ég hef ekki gert það. Ég bara fer á hnefanum. Því meiri sem áhyggjurnar eru, því meira fer ég bara að vinna. Ég vinn mig í gegnum hlutina en ég fékk smá taugaáfall úti við ruslatunnurnar. Ég brotnaði þar niður og hágrét. Það var svona í eitt skipti en svo er ég aðallega búin að vera að standa við bakið á henni, hjálpa henni. Jú, auðvitað þurfum við að fá hjálp líka því þetta hefur áhrif á alla fjölskylduna.“

Horfa má á viðtalið við mæðgurnar hér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Harmleikurinn í Garðabæ: Eiginkonan hringdi í Neyðarlínuna eftir að maðurinn hneig niður

Harmleikurinn í Garðabæ: Eiginkonan hringdi í Neyðarlínuna eftir að maðurinn hneig niður
Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Segir of seint að ráða Zelenskyy af dögum

Segir of seint að ráða Zelenskyy af dögum