Bandarísk kona hrósar íslenska heilbrigðiskerfinu fyrir góða og snögga þjónustu þegar eiginmaður hennar veiktist skyndilega.
Konan greinir frá því á samfélagsmiðlinum Reddit að eiginmaður hennar hafi veikst þegar þau höfðu verið í ferðalagi á Íslandi í fjóra daga. Byrjaði hann að kasta stanslaust upp og í gærmorgun ákváðu þau að leita læknisaðstoðar.
Höfðu þau samband við og fóru á Læknavaktina í Austurveri, greiddu þar 150 dollara eða um 19 þúsund krónur og heimsóknin tók innan við klukkutíma þrátt fyrir að um 30 manns væru að bíða.
„Læknirinn var vinsamlegur og skilvirkur,“ segir konan. „Hann gerði blóðprufu á staðnum til að leita eftir sýkingu. Svo sagði hann okkur að fara á bráðadeildina á Landspítalanum í um 1,5 kílómetra fjarlægð. Hann sýndi okkur meira að segja á korti hvar það væri.“
Á bráðamóttökunni liðu ekki nema nokkrar mínútur þar til búið var að taka hann inn, taka blóðprufu, hjartalínurit og fleiri prófanir uns hann var tekinn í sneiðmyndatöku.
Greinir hún frá því að hann verði á spítalanum í einhvern tíma vegna nýrnabilunar vegna vökvataps.
„Allir hérna á spítalanum hafa verið vinsamlegir og hjálplegir og staðall skilvirkni og upplýsingagjafar er svo miklu meiri en við eigum að venjast í bandarískum bráðadeildum,“ segir hún. „Ég vill þakka Íslandi fyrir frábæra heilbrigðisþjónustu og Íslendingum fyrir að vera svona vinsamleg og umhyggjusöm þjóð. Allir hafa hjálpast að við að gera slæmt ástand betra. Við erum nýkomin en við elskum ykkur strax, Ísland. Takk.“