„Það ljóst að tollastríðið sem Donald Trump setti af stað er meðal annars hluti af stórveldasamkeppninni sem nú er á milli Bandaríkjanna og Kína,“ segir Hilmar Þór Hilmarsson, prófessor við Háskólann á Akureyri. Hilmar bendir á að Kínverjar hafi svarað tollahækkunum Bandaríkjamanna af hörku. Segir hann Bandaríkjamenn vera að reita alla til reiði, sem geti ekki talist skynsamlegt:
„Þeirra mat er að Trump valti yfir þá sem sýna veikleika. En Trump beitir ekki bara tollum gegn Kína heldur hótar að beita þeim gegn hefðbundnum bandalagsríkjum, t.d. ESB, þar sem mörg aðildarríkin eru líka í NATO. Það er tæpast skynsamlegt fyrir Bandaríkin til lengri tíma litið að reita nánast öll lönd til reiði. Bandaríkin eru ríkasta land heimsins og hafa gefið sig út fyrir að vera leiðtogi hins frjálsa heims. Til að halda þessari stöðu er mikilvægt fyrir Bandaríkin að eiga bærilegt samstarf við önnur lönd í efnahagsmálum og öryggismálum, sérstaklega sína bandamenn.“
„Eflaust eru hluti skýringarinnar á tollastríði væntingar um að þá muni erlend fyrirtæki færa verksmiðjur sínar inn fyrir landamæri Bandaríkjanna og hefja þar framleiðslu til að forðast tolla, en einnig að bandarísk fyrirtæki muni eflast við tollavernd. Það er erfitt að sjá hvernig þetta endar með tollana. Einn dag eiga þeir að skella á, en nokkru síðar er þeim frestað, nú í 90 daga á mörg lönd. Hvað gerist svo?
Það á eftir að koma í ljós hvort tekst að byggja upp öflugri iðnað í Bandaríkjunum með tollavernd. Nú eru háir tollar á Kína. Það tekur langan tíma að byggja upp nýjar verksmiðjur og manna þær með hæfu starfsfólki og það er mikil óvissa um hvað Trump gerir næst. Ólíklegt verður að teljast að fyrirtæki ráðist í mikla langtímafjárfestingu á grundvelli viðskiptastefnu sem gæti breyst með litlum fyrirvara. Einn dag er tollar, næsta dag er öllu frestað, næsta dag er aftur tollar. Stjórnmálaáhætta í Bandaríkjunum er nú mun hærri en hún var áður og áhætta fjárfesta hærri. Svo kemur nýr forseti eftir tæp fjögur ár. Hvað gerist þá?“
Hilmar bendir á að Biden-stjórnin hafi ekki staðið í tollastríði en hún hafi ofmetið mátt viðskiptaþvingana gegn Rússlandi. „Evrópa hefur orðið illa úti vegna viðskiptaþvingana við Rússland, sérstaklega Þýskaland. Nord Stream 2 gasleiðslan var eyðilögð en þar höfðu Þjóðverjar séð möguleika á ódýru gasi fyrir sig sem þeir þurfa fyrir sinn iðnað. Þýskaland er fyrst og fremst iðnríki.
Segja má að Evrópa hafi verið dregin inní Úkraínustríðið. Bandaríkin vildu að Úkraína færi í NATO á leiðtogafundi NATO í Búkarest í apríl 2008. Þrátt fyrir varnaðarorð létu Þýskaland og Frakkland undan þessum þrýstingi og ályktaði fundurinn að Úkraína færi í NATO. Úkraínustríðið hefur stórskaðað Evrópu efnahagslagslega og nú kemur ógn um enn meira tjón vegna tolla.“
„Hegðun Trumps getur leitt til þess að Bandaríkin verði ekki talin það sem kallað er „reliable partner.“ Þetta getur grafið undan trausti á Bandaríkjunum, ekki bara hjá ESB ríkjum. Hvað munu hefðbundin bandalagsríki Bandaríkjanna í Asíu eins og Japan og Suður-Kórea gera? Fara í nánari efnahagssamvinnu við Kína?
Bandaríkin hafa verið að mynda bandalög í Asíu vegna uppgangs Kína. Dæmi um þetta er Quad sem samanstendur af Ástralíu, Indland, Japan og Bandaríkjunum. Einnig AUKUS þar sem aðildarríkin eru Ástralía, Bretland og Bandaríkin. Hvað verður um samstöðu í slíkum bandalögum í tollastríði?“
Hilmar segir Víetnam hafa fylgt hluteysisstefnu hingað til en stefna Bandaríkjamanna gætu ýtt þessu ríki í átt til Kína:
„Víetnam óttast Kína og spenna er á Suður-Kínahafi. Bandaríkin hafa mikla hagsmuni af samstarfi við Víetnam vegna öryggismála í Austur-Asíu. Víetnam er land með 100 milljónir manna og öflugt hernaðarlega. Tollar á Víetnam gætu dregið úr trausti á Bandaríkin og ýtt landinu að Kína.“
Hilmar segir að ófyrirsjáanleg hegðun Trumps geti ýtt ríkjum í fang Kína: „Staðan nú er ekki sérstaklega góð. Hvað dettur Trump í hug á þeim tæpu fjórum árum sem eftir eru? Þetta styrkir BRICS samstarfið og getur leitt til þess að lönd eins og Japan og Suður-Kórea sækjast eftir nánari efnahagssamvinnu við Kína. Hvað gera þessi lönd svo í öryggismálum? Ýmis lönd og landahópar eins og ESB og BRICS munu hugsanlega fara að vinna saman til að minnka óvissuna vegna Trumps og óvissunnar um framtíðartollastefnu hans.“
Hann veltir því líka fyrir sér hver viðbrögð Kína verði við herskárri tollastefnu Bandaríkjamanna:
„Kína er nú undir pressu vegna tolla frá Bandaríkjunum. Hvað mun Kína mun gera? Leita til Evrópu? Og hvað mun Evrópa gera, leita til Kína? Þetta væri þróun sem ekki væri í samræmi við efnahags- og öryggishagsmuni Bandaríkjanna. Þessi þróun gæti leitt til sölu á hátæknivörum fá Evrópu til Kína, eitthvað sem Bandaríkin vilja alls ekki.“
Viðkvæm staða er í Mið-Austurlöndum og hætta á stríði Bandaríkjamanna við Íran:
„Og svo er staðan í Mið-Austurlöndum slæm. Hugsanlegt stríð við Íran. Þetta gæti truflað flutninga í Persaflóanum og haft gríðarlegar efnahagslegar afleiðingar fyrir allan heiminn vegna hækkandi olíuverðs. Íran er í mikilli hættu ef ekki verður samið og mun eflaust keppast við að koma sér upp kjarnorkuvopnum.
Einn helsti ráðgjafi Donalds Trumps í málum Rússlands vegna Úkraínustríðsins, og í Mið-Austurlöndum er Steve Witkoff. Hann er þekktur fyrir fasteignaviðskipti og án efa hæfur á því sviði. En í þessum málum eru engar einfaldar lausnir til. Það olli nokkru fjaðrafoki á sumum stöðum þegar Witkoff lét hafa eftir sér að Pútin væri „a great guy“ og „super smart.““