Lögreglan á Norðurlandi Vestra hefur sent frá sér tilkynningu með frekari upplýsingum um alvarlegt umferðarslys sem varð á Siglufjarðarvegi í gærkvöldi. Segir þar að hópur ungmenna hafi komið að slysinu áður en lögreglan komst á staðinn.
Í tilkynningunni kemur fram að bifreið sem ekið var í norðurátt kastaðist utan vegar með þeim afleiðingum að ökumaður hennar, og þrír farþegar slösuðust. Einn hafi verið fluttur með þyrlu Landhelgisgæslunnar á Landspítala Háskólasjúkrahús en aðrir farið með sjúkraflugi á spítalann. Frekari upplýsingar um ástand þeirra liggi ekki fyrir.
Fram kemur einnig að hópur ungmenna, tæplega 30 einstaklingar, sem voru á leið í samkvæmi á Hofsósi, hafi verið á vettvangi slyssins þegar lögregla kom á staðinn. Ekki kemur fram í tilkynningunni hvort að ökumaður og farþegar í bílnum tengist þessum hópi.
Segir í tilkynningunni að ungmennunum hafi verið fylgt í húsnæði Björgunarsveitarinnar Grettis á Hofsósi þar sem lögregla, björgunarsveit og áfallateymi Raupa krossins hafi hlúð að þeim. Um tíma hafi verið opnuð hjáleið fyrir foreldra og aðstandendur þeirra svo unnt væri að koma öllum í faðm fjölskyldu sinnar eða vina. Bakvakt barnaverndar í Skagafirði hafi verið í sambandi við lögreglu á vettvangi og verið upplýst um aðgerðir.
Segir að lokum í tilkynningunni að vegurinn hafi verið opnaður fyrir umferð kl. 01.07 í nótt en áfram verði unnið á vettvangi í dag.