Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor emeritus í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands hefur ekki farið leynt með stuðning sinn við Ísrael. Í athugasemdakerfi Facebook-síðu mbl.is gagnrýnir hann íslenska kvennalandsliðið í handbolta harðlega fyrir að lýsa því yfir opinberlega að banna eigi Ísrael að taka þátt í alþjóðlegum íþróttakeppnum á meðan ástandið á Gaza breytist ekkert og fyrir að hylja auglýsingar á búningum sínum frá fyrirtækinu Rapyd, sem upphaflega var stofnað í Ísrael, og kallað hefur verið eftir sniðgöngu á. Sakar Hannes leikmennina um meðvirkni og þjálfara liðsins um fávisku en fær sjálfur yfir sig holskeflu skamma en þó einnig stuðning.
Kvennalandsliðið þurfti nýlega að leika tvo leiki í undankeppni HM við Ísrael en yfirlýsing liðsins var gefin út eftir seinni leikinn. Arnar Pétursson þjálfari liðsins hafði sömuleiðis gagnrýnt veru Ísraels í keppninni. Kallað var eftir því að liðið neitaði að spila við Ísrael en á móti var bent á að það hefði engu breytt nema að tryggja Ísrael þátttökurétt á HM og Íslandi refsingu. Hannes segir yfirlýsingar hópsins bera vott um litla þekkingu á ástandi mála í Mið-Austurlöndum:
„Það er eitthvað meira en lítið að á þessum bæ, þjálfarinn með fávíslegar athugasemdir opinberlega og blessaðar stúlkurnar, allt sennilega sakleysingjar, meðvirkar. Ísrael er eina landið í Mið-Austurlöndum, þar sem konur njóta fullra réttinda á við karla.“
Margir reiðast mjög þessum ummælum Hannesar og meðal ummæla í þeim kantinum má nefna eftirfarandi:
„Ertu þá að tala um þær palestínsku? Þær hafa vissulega sama „rétt“ til að vera drepnar og karlar, börn og gamalmenni.“
„Sama rétt og karlar að ganga í herinn og myrða börn já.“
„Er það þess vegna sem það er að koma nauðgunarmál uppá nauðgunarmál í þessum flotta her þeirra. Þær hafa sama rétt og karlar til að drepa palestínsku þjóðina.“
„Þú ert fáfróður. Þegar þú talar um mannréttindi þá ættirðu að fylgjast með fréttum.“
„Hamas er bein afleiðing af ísraelsku landráni. Ef þú króar hund út í horni er ekki óeðlilegt að hann snúi vörn í sókn og glefsi. Hamas væri ekki til ef Ísrael væri ekki viðbjóðurinn sem það er og hefur alltaf verið.“
Sumir taka þó undir með Hannesi og svara þeim sem gagnrýna hann fullum hálsi:
„Svokölluð ærumorð á konum araba í Palestínu eru fleiri en fjöldi þeirra kvenna sem falla í stríði þínu og Hamas á Gaza (þegar hann er talinn rétt).“
„Hvaða landi rændu þeir nákvæmlega?“