fbpx
Laugardagur 12.apríl 2025
Fréttir

Allt fór í uppnám í Breiðholti vegna þriggja metra

Jakob Snævar Ólafsson
Laugardaginn 12. apríl 2025 12:30

Breiðholt Myndin tengist fréttinni ekki beint.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur hafnað kröfum eigenda fasteignar í Breiðholti í Reykjavík um að ákvörðun byggingarfulltrúa Reykjavíkurborgar, sem kveður á um að þeir skuli færa smáhýsi á lóð sinni að minnsta kosti þrjá metra frá gangstétt, verði felld úr gildi.

Ákvörðunin var tekin í nóvember 2024 og kærðu eigendurnir hana til nefndarinnar í desember sama ár.

Upphaf málsins má, samkvæmt úrskurði nefndarinnar, rekja aftur til sumarsins 2023. Reykjavíkurborg sendi eigendunum þá bréf og tilkynnti að í kjölfar ábendinga hefði vettvangsskoðun leitt í ljós að smáhýsið auk runna á lóðinni skyggði á sýn vegfarenda en húsið stendur á götuhorni. Eigendurnir höfnuðu því að færa smáhýsið og lækka runnana eins og borgin fór fram á.

Gekk á með bréfaskiptum milli eigendanna og borgarinnar næstu vikur og mánuði og varaði borgin við því að dagsektum yrði beitt yrði smáhýsið ekki fært og runnarnir lækkaðir.

Í bréfi byggingarfulltrúa borgarinnar til eigenda í nóvember 2024 kom fram að staðfest hefði verið með eftirlitsskoðun að runnarnir hefðu verið lækkaðir en smáhýsið væri enn á sínum stað og stytti eftir sem áður sjónlínur vegfarenda svo mjög að umferðaröryggi almennings væri ógnað. Því stæði krafa um að færa smáhýsið óhögguð. Veittur var 14 daga frestur til að verða við kröfunum annars yrðu 25.000 króna dagsektir lagðar á og kærðu þá eigendurnir málið til nefndarinnar.

Formið

Eigendurnir gerðu í kæru sinni til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála ýmsar athugasemdir við ákvörðun byggingarfulltrúans einkum á þeim grundvelli að hún væri haldin ýmsum formgöllum.

Sögðu eigendur meðal annars að andmælaréttur þeirra hefði ekki verið virtur, lagaheimild skorti fyrir ákvörðuninni. Smáhýsi eins og þeirra væri undanþegið byggingarreglugerð. Ákvörðunin hafi gengið gegn kröfum stjórnsýsluréttar um meðalhóf. Vísuðu eigendurnir sömuleiðis til eignarréttar síns og sögðu ekki hægt að færa smáhýsið án þess að valda tjóni þar sem það stæði á steyptum grunni. Vildu eigendur einnig meina að borgin hefði sjálf með snjómokstri hindrað sömu sjónlínu og sögðu jafn framt sömu kröfur ekki gerðar til annarra fasteignaeigenda við önnur gatnamót í hverfinu.

Allt samkvæmt formi

Í andsvörum Reykjavíkurborgar var fullyrt að alfarið hefði verið farið eftir lögum í málinu. Sagði borgin byggingarreglugerð gilda um öll mannvirki. Heimilt sé að grípa til aðgerða ef frágangi byggingar og lóðar sem hún standi á sé ábótavant.

Borgin sagði að vissulega væru smáhýsi innan ákveðinna stærðarmarka undanþegin byggingarreglugerðinni en tekið sé þó fram í henni að samþykki eigenda aðliggjandi lóðar verði að liggja fyrir sé smáhýsið í innan við þriggja metra fjarlægð frá lóðarmörkum. Í þessu tilfelli sé borgin sjálf lóðarhafi aðliggjandi lóðar og hafi aldrei veitt samþykki sitt fyrir smáhýsinu enda hafi aldrei verið leitað eftir því. Vísaði borgin sömuleiðis til deiliskipulags og ákvæða byggingarreglugerðar um að ekki mætti hindra útsýni með byggingum sem stæðu á lóðarmörkum við gangstéttir. Vildi borgin enn fremur meina að gætt hefði verið meðalhófs og andmælaréttur eigendanna virtur.

Staðfest

Fram kemur í úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála að nefndarmenn hafi sjálfir farið á vettvang til að kanna aðstæður.

Er í úrskurðinum vitnað í álit eftirlitsdeildar umhverfis- og skipulagssviðs borgarinnar þar sem fram komi meðal annars að smáhýsið sé illa staðsett með tilliti til umferðaröryggis en það stytti verulega sjónlínur gagnvart gangandi og hjólandi vegfarendum. Umrætt götuhorn sem smáhýsið standi við sé „frekar blint“ fyrir akandi vegfarendur sem mætist á horninu. Til að koma í veg fyrir slys sé mjög mikilvægt að vegfarendur hafi möguleika á að sjá hvern annan. Blindhorn komi í veg fyrir það og geti skapað mjög hættulegar aðstæður sem leitt geti til umferðarslysa og slysa á fólki. Á umræddum gatnamótum gæti blindhornið leitt til árekstra milli gangandi og hjólandi vegfarenda og bifreiða og gangandi eða hjólandi vegfarenda.

Nefndin segir ákvörðunina studda ítarlegum rökum og um sé að ræða mannvirki sem skerði verulega æskilega sjónlínu við umrædd gatnamót. Gögn málsins beri með sér að andmælaréttur eigendanna hafi verið virtur. Tilvitnunum í lög hafi verið ábótavant en alveg sé ljóst af gögnum málsins hvers var krafist af eigendunum.

Þar með hafnar nefndin því að ógilda þá ákvörðun byggingarfulltrúans að eigendur smáhýsisins skuli færa það að minnsta kosti þrjá metra frá gangstéttinni sem lóð þeirra liggur að.

Þar sem lokaákvörðun um álagningu dagsekta hafði ekki verið tekin af byggingarfulltrúa var þeim hluta málsins vísað frá nefndinni en eftir stendur að eigendunum ber að færa smáhýsið um þá þrjá metra sem deilt var um í þessu máli.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Guðrún fór með 15 ára dóttur sinni á fótboltaleik – Blöskraði það sem hún sá

Guðrún fór með 15 ára dóttur sinni á fótboltaleik – Blöskraði það sem hún sá
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sólveig Anna sendir fyrrverandi þingkonu pillu – „Hér er dæmi um ruglið sem mætir mér”

Sólveig Anna sendir fyrrverandi þingkonu pillu – „Hér er dæmi um ruglið sem mætir mér”