„Ég lýsi þessu oft eins og hvirfilbyl. Þú ert inni í hvirfilbylnum og þú sérð bara inn.” Þegar maður sé í hvirfilbylnum sjái maður ekki út fyrir hann. „Eins og svona komment: Af hverju hættir þú ekki með honum, af hverju gerðir þú ekki þetta? Þetta hljómar svo einfalt. Meira að segja ég sjálf í dag hugsa stundum: Hvað var svona flókið við það að segja, heyrðu við erum hætt saman. Farðu út.”
Þannig lýsir Sigrún Emma Björnsdóttir ofbeldissambandi sem hún var í. Hún var 21 árs þegar hún byrjaði með manni sem var 12 árum eldri en hún. Hún segir manninn hafa beitt sig grófu líkamlegu ofbeldi og þegar því sambandi lauk fór hún í annað samband, sem fljótlega þróaðist í að maðurinn beitti hana ofbeldi. Hann beitti hana bæði líkamlegu og andlegu ofbeldi en Sigrún segir það andlega hafa verið mun verra og erfiðara að átta sig á því.
„Andlegt ofbeldi er svo ótrúlega falið. Fólk áttar sig ekkert á hvað er í gangi, ég myndi frekar vilja vera með glóðarauga á báðum labbandi úti til að fólk myndi átta sig á þjáningunni sem maður bjó við. Andlegt ofbeldi, þetta breytir þér svo mikið. Þetta breytir hugsuninni þinni. Þetta breytir hegðuninni þinni,” segir Sigrún Emma sem sagði sögu sína í söfnunarþættinum Byggjum nýtt Kvennaathvarf.
Ofbeldið jókst í margra ára sambandi. Undir lok sambandsins komst Sigrún Emma að því að maðurinn hafði fylgst með henni, komið fyrir upptökubúnaði á heimilinu og í bílnum hennar.
„Hann heyrði allt sem ég sagði og gerði. Það galnasta við það var að ég var aldrei að gera neitt sem ég mátti ekki gera. Ég var aldrei óheiðarleg, að svíkja hann eða hvað sem það er.”
Maðurinn hótaði henni stöðugt. „Þá bara já, þá skal ég bara rífa af þér munninn, og endaþarminn og eyðileggja húsbílinn hjá pabba þínum. Þetta var bara svona, þetta er allt svona galið.”
Sigrún Emma segist hafa reynt að losna úr sambandinu, það gekk illa og þau byrjuðu oft saman aftur. Hún segir að hann hafi setið um hana, hótað henni og gert ýmislegt til að ná til hennar.
„Þegar ég loksins næ honum út þá tekur við svona hálft ár af ógeði. Viðbjóðslegasti tíminn í lífi mínu. Þá byrjaði geðveikin. Ég til dæmis er að vinna, kem út úr vinnunni, er á bílaplaninu fyrir utan vinnuna mína. Þá kemur hann og keyrir mig niður.”
Hún undirbjó sig vel til að koma sér út úr sambandinu. Hún fór í viðtal í Bjarkarhlíð og í ráðgjöf til Kvennaathvarfsins. Þar fékk hún meðal annars að heyra að líklega yrði hún laus við ofsóknir hans þegar hann byrjaði með annarri konu. Sem gerðist, maðurinn fann sér nýja konu og beitti hana einnig ofbeldi að sögn Sigrúnar Emmu.
„Kvennaathvarfið er allt annað en fólk veit og gerir ráð fyrir. Ég sjálf skammast mín fyrir að hafa hugsað svona. Kvennaathvarfið bjargaði lífi mínu. Ég vissi ekkert að ég væri í ofbeldissambandi. Hún vissi alltaf allt sem ég var að fara segja. Þá lærði ég að ég var ekki ein. Ef ég hefði ekki farið þarna eða hitt hana. Ég efast um að ég væri hér í dag. Ég held ég væri ekki lifandi til að segja þessa sögu. Hún gerði rosa mikið fyrir mig. Mér þykir ótrúlega vænt um hana og Kvennaathvarfið. Afleiðingar heimilisofbeldis eru grafalvarlegar. Fólk áttar sig oft ekkert á því hvað afleiðingarnar fylgja manni út í lífið og hafa áhrif á allt.“
Sigrún Emma segist ekki vera grey sem þarf á vorkunn að halda. Þeir sem komast út úr ofbeldissamböndum séu sigurvegarar og það eigi að beina sjónum að gerendum og þeirra vanda. Þar sé vandamálið.
„Mér líður eins og ég sé survivor, winner. Hermaður sem er að koma úr stríði. Ekki tala um mig sem eitthvað grey. Það er hann sem er grey, ekki ég. Við þurfum aðeins að breyta þessu viðhorfi sem fólk hefur. Við skulum alltaf muna að sýna fólki samkennd, kærleik og skilning. Það hafa allir sínar ástæður. Og gleymum því aldrei að konur eru konum bestar.”