Sigurður Gísli Björnsson hefur verið dæmdur í þriggja ára fangelsi og til greiðslu sektar upp á rúmlega 1,8 milljarða fyrir stórfelld skattalagabrot í svokölluðu Sæmarks-máli en um er að ræða eitt umfangsmesta skattamál Íslandssögunnar.
Dómari taldi brot Sigurðar stórfelld, skipulögð og hafi háttsemin endurspeglað einbeittan brotavilja hans. Brotin stóðu yfir í langan tíma og þeim var leynt með skipulögðum hætti.
Sigurður var ákærður árið 2023 og gert að sök að hafa skotið rúmum milljarði undan skatti með notkun aflandsfélaga.
Auk Sigurðar voru þeir Magnús Jónsson, lögmaður hjá Vivios lögmönnum, og Jónas Sigurðsson, eigandi Glugga og hurðasmiðju SB ehf., ákærðir, þótt þeirra hlutir þættu ekki jafn alvarlegir og Sigurðar.
Magnús var dæmdur í 18 mánaða fangelsi en 15 mánuðir eru skilorðsbundnir. Hlutur hans fólst í því að hafa aðstoðað Sigurð Gísla við að láta skattyfirvöldum í té rangar upplýsingar og gögn varðandi skattframtöl Sæmarks-Sjávarafurða ehf. rekstrarárin 2014-2016 sem og við að rangfæra bókhaldsgögn með því að búa til reikninga sem ekki áttu sér stoð í viðskiptum aðila. Magnús tók eins við fjármunum frá Sæmarki og ráðstafaði þeim áfram til aflandsfélags sem Sigurður Gísli var raunverulegur eigandi að. Þetta fór fram með leynd í þeim tilgangi að komast undan greiðslu skatta og gjalda. Magnús hafi þannig gerst sekur um peningaþvætti. Dómari taldi að þáttur Magnúsar hafi verið nauðsynlegur við fullframningu brotanna.
Jónas var dæmdur í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi og þarf að greiða 3,5 milljóna sekt í ríkissjóð. Hann var dæmdur fyrir að hafa aðstoðað Sigurð Gísla með útgáfu rangra og tilhæfulausra sölureikninga í nafni Glugga og hurðasmiðju SB ehf., en Jónas játaði sök í málinu.
Um brot Sigurðar Gísla skrifaði héraðsdómur í niðurstöðukafla:
„Þykir sýnt að þeir fjármunir sem um er að tefla voru afrakstur umfangsmikilla skattsvika milli landa þar sem fjármunum var að miklu leyti komið fyrir á bankareikningum aflands-félaga ákærða Sigurðar Gísla. Þá var öll meðferð fjármunanna til þess fallin að dylja slóð þeirra. Fjármunir voru fluttir milli lögaðila og landa á grundvelli rangra og tilhæfulausra reikninga og bókhaldsgagna, og loks inn á reikninga aflandsfélaganna tveggja. Engar raunhæfar skýringar hafa verið gefnar af hálfu ákærða Sigurðar Gísla að baki ætluðum viðskiptum sem liggja til grundvallar í málinu og lagðar voru til grundvallar við skattskil ákærðu.
Við heildstætt mat atvika sem og lýsingar í ákærukaflanum þykir ljóst að ákærði Sigurður Gísli ráðstafaði ólögmætum úttektum sínum af reikningum Sæmarks-Sjávarafurða ehf. til áðurgreindra erlendra félaga með ráðstöfunum sem augljóslega höfðu þann tilgang einan að leyna úttektum og ólögmætum tilgangi þeirra. Stórum hluta þeirra fjármuna var í framhaldinu ráðstafað inn á bankareikninga fyrrgreindra tveggja aflandsfélaga ákærða Sigurðar Gísla. Þá liggur fyrir að bankareikningi Freezing Point Corp. var lokað 20. apríl 2016 og innstæður hans lagðar inn á persónulegan bankareikning ákærða Sigurðar Gísla, sem rennir augljósum stoðum undir eðli tengsla hans við framangreint aflandsfélag.“