Umsáturseinelti hefur verið töluvert í fréttum undanfarna mánuði vegna ásakana á hendur konu um slíkt. En DV hefur núna undir höndum viðamikla ákæru þar sem önnur kona, fædd árið 2001, er sökuð um ítrekað umsáturseinelti og ofsóknir í garð lögreglumanna á Suðurnesjum.
Meint brot konunnar voru samkvæmt ákærunni framin nýlega, eða frá 1. september 2024 fram til 6. mars 2025. Er hún sökuð um að hafa ítrekað hótað, fylgst með og sett sig í samband við lögreglukonu. Hún hafi meðal annars ekið framhjá heimili hennar að nóttu til og sent henni töluvpóst þrátt fyrir bann um slíkt. Meðal annars sendi hún henni eftirfarandi skilaboð:
„Ekki segja neitt um málin sem eru í gangi sem þú munt sjá eftir“
Konan er sökuð um að hafa aðfaranótt mánudagsins 28. október 2024 sett inn um bréfalúgu lögreglumanns handskrifað bréf með skilaboðunum:
„KARMA‘S A Bitch STAY SAFE“
Einnig er hún sökuð um að hafa ekið að heimili lögreglumannsins þrátt fyrir að sæta nálgunarbanni gagnvart honum.
Konan er sökuð um að hafa í félagi við óþekktan aðila stungið á hjólbarða lögreglbíls fyrir utan lögreglustöð í Reykjanesbæ. Hún er sökuð um að hafa í lok janúar á þessu ári sparkað í vinstri hlið lögreglubíls á sama stað. Skemmdist bíllinn það mikið að hann var ónothæfur.
Ennfremur segir í ákærunni:
„Að kvöldi mánudagsins 10. mars 2025, slegið með áhaldi í tvær rúður að skjalageymslu embættisins á suðurhlið lögreglustöðvarinnar að Brekkustíg 39 í Reykjanesbæ, með þeim afleiðingum að rúðurnar brotnuðu.
Aðfaranótt föstudagsins 14. mars 2025, slegið með áhaldi í rúðu á suðurhlið lögreglustöðvarinnar að Brekkustíg 39 í Reykjanesbæ, með þeim afleiðingum að rúða í skýrslutökuherbergi lögreglu brotnaði og aðstaða lögreglu til yfirheyrslna af þeim sökum ónothæf um tíma.“
Konan er einnig sökuð um að hafa sparkað í lögreglumann eftir skýrslutöku. Það atvik átti sér stað þann 12. nóvember 2024 í fangaklefa á lögreglustöð í Reykjanesbæ.
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum gerir einkaréttarkröfur á hendur konunni vegna skemmdarverka upp á samtals um 450 þúsund krónur.
Málið var þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjaness í lok síðasta mánaðar en réttað verður yfir konunni á næstu vikum.