„Einhver hafði farið inn í bílinn og rótað þar úr öllum hólfum. Bíllinn var eins og eftir sprengju,“ segir hann í færslu sinni. Hann segist hafa lent í þessu áður, þegar hann átti Mitsubishi Lancer, og á endanum hafi hann verið farinn að skrifa þeim þjófi bréf sem á stóð:
„Tekur því ekki að fara hér inn, ekkert fénæmt.“
„Og þessu tímabili hálfpartinn lauk með að einu sinni var nákvæmlega allt, hvert snitti, hirt úr honum, draslið líka og ég var því sannast sagna feginn og fannst þjófurinn hafa gert mér greiða. Ég þurfti þá ekki að taka til í honum.“
En í þetta skiptið var þetta verra og segir Jakob að þjófurinn hafi opnað öll hólf, meira að segja hafði hann tekið eftir hólfi í loftinu, sem var opið þegar hann kom að bílnum. Í hólfinu voru geymd sólgleraugu með sjóngleri og voru þau horfin.
„Kassi með þrifgræjum, það var búið að sturta úr honum. Golfkúlukassi sem ég hafði í neti sem er aftan á farþegasætinu — horfið. Fjölmargar snúrur og fjöltengi í græju til að hlaða símann, þetta var farið. Statívið fyrir símann þó skilið eftir? Barnabílstóllinn og skafan voru skilin eftir?“
Jakob veit ekki nákvæmlega hvað þjófurinn hafði upp úr krafsinu en telur að hann hafi gleymt að læsa bílnum sínum. Sem hann er þó ekki vanur að gera, að eigin sögn. En mest sá hann eftir sólgleraugunum enda nýtast þau honum einum.
En eftir þetta gerðust skrýtnir hlutir, eða kannski öllu heldur eftir að Jakob ákvað að skrifa bréf til þjófsins sem hann skildi eftir í mælaborðinu. Bað hann þjófinn vinsamlegast um að skila gleraugunum. En hitt mætti hann eiga.
„Þessi skilaboð setti ég á mælaborðið, læsti bílnum og fór að sofa. Fyrsta sem ég sé þegar ég kom út í bíl næsta morgun eru sólgleraugun. Þau lágu í falsinu við hliðina á bílstjórasætinu. Og bíllinn læstur!“
Jakob veit eiginlega ekki í hvorn fótinn hann á að stíga.
„Nú get ég ekki fyrir mitt litla líf vitað hvort mér hafi yfirsést gleraugun, sem mér finnst sérkennilegt því þau blöstu við mér að morgni þriðjudags eða orðsendingin hafi skilað tilætluðum árangri? En það þýðir þá að þjófurinn hefur aðgang að bílnum. Hvað heldur þú, lesandi góður? Þekki ég ekki einhvern Sjerlák?“