fbpx
Laugardagur 12.apríl 2025
Fréttir

Gufunesmálið: Lífsýni úr hinum látna fundust í iðnaðarhúsnæði fyrir utan Reykjavík

Ágúst Borgþór Sverrisson
Föstudaginn 11. apríl 2025 20:00

Yfirlitsmynd af Gufunesi. Mynd: Reykjavíkurborg

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Landsréttur hefur nú staðfest úrskurð Héraðsdóms Suðurlands um gæsluvarðhald yfir þremur sakborningum vegna rannsóknar lögreglu á andláti Hjörleifs Hauks Guðmundssonar, 65 ára gamals manns frá Þorlákshöfn, sem fannst þungt haldinn í Gufunesi í byrjun mars og lést skömmu síðar af völdum misþyrminga. Hafa mennirnir verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald til 7. maí.  Samkvæmt frétt RÚV í fyrradag hafa sjö manns stöðu sakbornings í málinu en DV hefur fengið vísbendingar um að fleiri gætu tengst því, allt að 12 manns.

Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi, vill ekki tjá sig um hvað margir eru taldir tengjast málinu. Varðandi spurningu um hverjir séu taldir höfuðpaurar bendir Sveinn einfaldlega á þá staðreynd að þrír séu í gæsluvarðhaldi. Mennirnir eru ekki lengur í einangrun.

Eins og DV hefur áður greint frá var aðförin að Hjörleifi svokölluð tálbeituaðgerð og kom í kjölfar samskipta við hann á samfélagsmiðlum. Sakborningar segja hann hafa átt í samskiptum við aðila sem hann taldi vera 11 ára barn og hafi Hjörleifur síðan gengist við því. Rétt er að benda á í þessu samhengi að Hjörleifur heitinn þjáðist af heilabilun. Ekkert hefur komið fram sem bendir til að hann hafi farið til fundar við barn né að sakborningar telji sig hafa upplýsingar um að hann hafi brotið gegn börnum.

Margvísleg sönnunargögn

DV hefur heimildir fyrir því að lífsýni úr Hjörleifi hafi fundist í iðnaðarhúsnæði fyrir utan Reykjavík. Hafi húsnæðið verið rannsakað og blóð fundist úr hinum látna. Eins og áður hefur komið fram fannst hann þungt haldinn í Gufunesi þar sem vegfarandi varð hans var og hafði samband við viðbragðsaðila. Hjörleifur var hins vegar áður numinn á brott af heimili sínu í Þorlákshöfn.

Að minnsta kosti tveir bílar hafa verið til rannsóknar í málinu. Annar þeirra, svört Tesla, mun geyma mikið af sönnunargögnum þar sem upptökubúnaður í bílnum tók sjálfkrafa upp efni sem vísar á sakborninganna. Sakborningarnir huldu andlit sín en það kom ekki í veg fyrir að lögregla gæti borið kennsl á þá.

Í samtali við DV vildi Sveinn ekkert tjá sig um rannsókn á iðnaðarhúsnæði né bílum. Aðspurður segir hann að rannsókn í málinu miði mjög vel en hann getur ekki sagt til um hvenær henni verður lokið.

Fjármunir ekki endurheimtir

DV hefur áður greint frá því að hinir grunuðu kúguðu um þrjár milljónir af Hjörleifi er þeir misþyrmdu honum. Um þetta hefur lögregla ekki viljað tjá sig sérstaklega en segir að til rannsóknar sé manndráp, frelsissvipting og fjárkúgun. Samkvæmt heimildum DV hafði fjármununum verið umbreytt áður en mennirnir voru handteknir og hefur ekki tekist að endurheimta þá.

Lítið er vitað um tengsl sakborninga við Hjörleif. Ljóst er að einhverjir þeirra áttu í samskiptum við hann á samfélagsmiðlum sem hluti af tálbeituaðgerð. DV hefur ennfremur heimildir fyrir því að tengsl séu á milli fjölskyldu eins sakborningsins og Hjörleifs en sá sakborningur og Hjörleifur þekktust þó ekki.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Guðrún fór með 15 ára dóttur sinni á fótboltaleik – Blöskraði það sem hún sá

Guðrún fór með 15 ára dóttur sinni á fótboltaleik – Blöskraði það sem hún sá
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sólveig Anna sendir fyrrverandi þingkonu pillu – „Hér er dæmi um ruglið sem mætir mér”

Sólveig Anna sendir fyrrverandi þingkonu pillu – „Hér er dæmi um ruglið sem mætir mér”