Fyrrverandi forstöðumaður sambýlis á Blönduósi hefur verið ákærður fyrir umboðssvik í opinberu starfi og fjárdrátt í opinberu starfi.
Maðurinn er í fyrsta lagi sakaður um að hafa misnotað aðstöðu sína og skuldbundið þrjá íbúa sambýlisins, þegar hann í alls sjö skipti notaði persónulega viðskiptareikninga þeirra hjá Lyfju til að kaupa vörur í heimildarleysi í eigin þágu. Starf ákærða fólst í þjónustu við íbúa sambýlisins og hafði hann á grundvelli þess heimild til kaupa á nauðsynjavörum fyrir þá, en þessi kaup voru án heimilda og með öllu ótengd störfum mannsins.
Þessi brot voru framin á árunum 2018 til 2020 og nema samtals rétt tæplega 100 þúsund krónum.
Maðurinn er í annan stað sakaður um að hafa notað kreditkort sambýlisins í heimildarleysi til kaupa á vörum í eigin þágu, annars vegar í Herrahúsinu Adam og hins vegar 66° Norður í Kringlunni. Voru þessi kaup framkvæmd árið 2020 og námu samtals 133 þúsund krónum. Er maðurinn ákærður fyrir umboðssvik og fjárdrátt vegna þessarra kaupa.
Kreditkortið hafði maðurinn fengið til nota fyrir sambýlið og var honum ætlað að greiða með því tilfallandi gjöld tengd starfsemi sambýlisins. Þessi notkun kortsins var hins vegar án heimilda og ótengd störfum ákærða fyrir sambýlið.
Málið verður þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjaness þann 15. apríl næstkomandi.