Bílslys varð á gatnamótum Flugvallavegar og Hringbrautar í kvöld. Tveir bílar skullu saman og önnur bifreiðin valt.
Hringbraut var lokað í austurátt á meðan unnið var á vettvangi en mikið brak var á veginum.
Sigurjón Ólafsson, varðstjóri hjá Slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu, segir í samtali við Vísi að betur hafi farið en á horfðist. Tveir voru fluttir á sjúkrahús með minni háttar meiðsl.
Báðir bílarnir eru mikið skemmdir eins og sjá má á meðfylgjandi myndum.