Leifur Dagfinnsson, framkvæmdastjóri og einn stofnenda kvikmyndafyrirtækisins Truenorth, segir íslensk stjórnvöld þurfa að líta sér nær og styrkja kvikmyndaiðnaðinn hérlendis. Erlend stórverkefni, líkt og þáttaröðin True Detective, hafi skapað þjóðarbúinu gríðarlegar útflutningstekjur sem svo margfaldist þegar þær komist í virkni í íslenska hagkerfinu. Leifur varar þess vegna sterklega við hugmyndum um skerðingar á endurgreiðslum til kvikmyndagerðar sem hafa verið boðaðar og segir það muna verða á kostnað íslenskra hagsmuna og tækifæra.
„Þessi þjónustugeiri eins og við köllum service, það er að segja að fá erlenda aðila til að mynda hér, hann hefur byggt upp þetta heilsárskonsept og byggt upp fleiri stöðugildi. Áður gastu rétt mannað í eitt kannski crew og kannski bara hluta til. Í dag getum við tekið tvö þrjú verkefni upp á sama tíma með topp fólk í hverri stöðu. Ísland er klárlega komið inn á radarinn núna,“
segir Leifur sem er nýjasti gestur Spjallsins með Frosta Logasyni. Vöxtur Truenorth hefur verið mikill á undanförnu árum og veltir fyrirtækið orðið mörgum milljörðum ár hvert. Kvikmyndaverkefni á borð við Star Wars, Batman Begins, Flags of Our Fathers, Die Another Day, Lara Croft: Tomb Raider, Prometheus, Oblivion, Noah, The Secret Life of Walter Mitty og True Detective
Leifur bendir á að áður fyrr hafi verið gerðar 1-2 kvikmyndir hér á landi, nú sé staðan allt önnur.
„Það er vegna þess að verkefnin auglýsa Ísland sjálfkrafa og öll stúdíóin og allir sem eru að vera að reka stúdíóin, þeir tala allir sín á milli. Þeir vita nákvæmlega hvað klukkan slær í hverju landi fyrir sig og þeir tala sín á milli hvernig gekk.“
Leifur segir tón þeirra breytast þegar hann bendir þeim á að endurgreiðslan séu verkefni tekin upp hérlendis sé 35%. Segir hann að til að Ísland sé samkeppnishæft verði það að halda sig í 35%
„Annars náum við ekki í verkefni eins og True Detective, sem eru sko níu mánaða verkefni. Sex mánuðir í tökum, þú veist, hundrað og þrettán tökudagar. Og nú er samt farið að strax að tala um að afnema þetta eða lækka verulega. Það er örugglega umfjöllun og ein af tillögum sem sagt til ríkisstjórnarinnar var að það ætti að taka það til endurskoðunar, sem ég tel mjög hættulegt vegna þess að það myndi skaða samkeppnishæfni okkar á erlendum vettvangi.
Og þarna erum við að nota og koma íslenskri menningu á kortið. Og við erum að koma íslenskri tónlist að, tónlistarmönnum sem eru að skapa tónlist, við erum að koma þeim líka á kortið. Við erum að koma íslenskum leikurum á kortið. Við erum að sjá eins og í True Detective, þá voru sjö Íslendingar tilnefndir til EMMY-verðlauna.“
Leifur bendir á að þegar ríkisstjórnin óskaði eftir tillögum frá almenningi um aðhaldsaðgerðir hafi einhverjir lagt til að þarna væri tilvalið að ríkið haldi aftur af sér og hætti að endurgreiða þrjátíu og fimm prósent. Segir hann að endurgreiðslan hafi verið 17-20% fyrir örfáum árum.
„Það er allt hækkað síðan COVID var. Það eru breytingar í þessum bransa frá því að verkföllin voru vestanhafs og ég þekki það bara sjálfur vegna þess að við erum í starfsemi í öðrum löndum. Og við vorum innsti koppur í búri þegar stúdíó var að sækja um endurgreiðslu þar fyrir verkefni sem var White Lotus.“
Bendir hann á að í Noregi er þak og aðeins einn umsóknardagur, þar sem aðilar þurfi að sækja um og vita hvað þeir fái endurgreitt árið eftir. Hér sé umsóknarferli opið allt árið. Ein stærsta sjónvarpsþáttasería nútímans hafi því leitað annað.
„Ferðaþjónustan blómstrar upp úr bara öllu valdi. Eins og við erum að sjá núna í Tælandi. Það er sko þreföldun af áhuga og ásókn í þessa eyju þar sem Survivor var tekin upp. Nema hvað að það var bara hluti af væntri endurgreiðslu miðað við hvað þeir ætluðu að eyða og gera.
Þannig að við þurfum að fara mjög varlega í þetta vegna þess að við getum ekki náð í True Detective eða White Lotus eða hvað sem þessir sjónvarpsþættir heita eða þessar stóru bíómyndir ef við ætlum að minnka þetta. Við höfum verið að reka stúdíó svipað eins og RVK og Baltasar, þetta er ekki eins og hendi sé veifað og bara öll stúdíóin eru full. Við verðum að geta boðið upp á aðstöðuna og viðhald í því og við fáum ekki aðila til þess að hugsa það og koma okkur á kortið nema við séum með þrjátíu og fimm prósent í endurgreiðslum. Minnst, það er bara þannig.“