Ársfundur Klappa fyrir rekstrarárið 2024 fór fram í gær. Þrátt fyrir óvissu á mörkuðum og fyrirhugaðar reglugerðarbreytingar á sviði sjálfbærni, reyndist árið afar jákvætt. Áskriftartekjur jukust umtalsvert, eða um 18,3%, og EBITDA framlegð nam heilbrigðum 26,0%.
„Við sjáum sífellt meiri eftirspurn eftir sjálfbærnihugbúnaði, bæði hér heima og á Norðurlöndum. Fyrirtæki af öllum stærðum gera sér nú betur grein fyrir mikilvægi þess að innleiða sjálfbærniverklag, ekki einungis til að uppfylla lagalegar kröfur, heldur einnig til að ná fram rekstrarhagræðingu og styrkja ímynd sína sem ábyrgur og framsækinn aðili í samfélaginu,“ segir Jón Ágúst Þorsteinsson, forstjóri Klappa í tilkynningu.
Árið 2024 var markað af kraftmiklum vexti í áskriftartekjum og aukinni viðbótarsölu til núverandi viðskiptavina. Með 26,0% EBITDA framlegð undirstrikar Klappir styrk sinn og getu til að fjárfesta markvisst í nýsköpun, vöruþróun og áframhaldandi alþjóðlegri sókn. Kjarninn í þessum árangri er vel mótað viðskiptalíkan þar sem dreifing og innleiðing hugbúnaðarins fer í gegnum sterkt net samstarfsaðila sem skapar skalanleika og alþjóðlega nærveru.
„Við höfum byggt upp öflugt alþjóðlegt samstarfsaðilanet sem telur nú yfir 30 fyrirtæki víðs vegar um heiminn. Þetta net er lykilstoð í vexti okkar og gerir okkur kleift að koma sjálfbærnihugbúnaði Klappa í hendur fleiri fyrirtækja, hraðar og með meiri slagkrafti, “ segir Jón Ágúst.
Klappir hafa lagt ríka áherslu á að samræma hugbúnaðarlausn sína við þarfir fyrirtækja í sjálfbærni og öllum rekstri. Öflug gagnavinnsla sem byggir á traustum og samanburðarhæfum gögnum um rekstur, virðiskeðju og vörukaup gera viðskiptavinum Klappa kleift að rýna í rekstrartölur og greina hvar hægt sé að draga úr kostnaði. Tíðari uppfærslur hafa fengið góðar undirtektir því þær miða að því að gera notendum kleift að greina sjálfbærni- og rekstrarvísa sína með meiri nákvæmni og setja sér metnaðarfull markmið um bætta frammistöðu í sjálfbærni og hagræðingu í rekstri.
„Á árinu var meðal annars ráðist í endurhönnun á notendaviðmóti, nýju og öflugra gagna- og skýrslugerðarkerfi og fjölda nýrra eiginleika sem bæta notendaupplifun. Skilvirkni í allri gagnasöfnun og gagnavinnslu hefur verið undirtónninn í verkefnum ársins auk þess sem sterkari tenging var gerð við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna,” segir Jón Ágúst.
Klappir er að stíga næsta stóra skref í vöruþróun með markvissum fjárfestingum í gervigreindarinnviðum. Með því að samþætta gervigreind beint inn í hugbúnaðarlausn Klappa verður geta viðskiptavina stórbætt til að hámarka árangur sjálfbærnivinnu sinnar, á meðan kostnaður við utanumhald og gagnavinnslu minnkar verulega.
„Gervigreindin mun gegna lykilhlutverki í sjálfvirkri gagnasöfnun, einföldun ferla og hagræðingu í gæðastýringu gagna. Viðskiptavinir okkar munu geta tekið betri ákvarðanir, hraðar og með minni tilkostnaði. Við munum smíða þessa virkni beint inn í kjarnavöru okkar á næstu misserum, sem styrkir samkeppnisforskot Klappa á ört vaxandi markaði,“ segir Jón Ágúst.