Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur nú sent Íslandi formlegt áminningarbréf vegna brota á EES-reglum um úrgang. Eins hefur ESA vísað tveimur aðskildum málum, tengdum úrgangi, til EFTA-dómstólsins. Annað tilvikið varðar urðun úrgangs og hitt tilvikið varðar umbúðir og umbúðaúrgang. Þetta kemur fram í tilkynningu frá ESA.
„Samkvæmt rammatilskipun um úrgang er EES-ríkjum skylt að tryggja að áætlanir um meðhöndlun úrgangs og áætlanir um forvarnir gegn úrgangi séu til staðar á landsvísu. Þetta er mikilvægt til að ná fram sjálfbærri meðhöndlun úrgangs, draga úr umhverfisáhrifum og styðja við hringrásarhagkerfið.
Enn hafa nokkur sveitarfélög á Íslandi ekki sett á fót svæðisbundnar úrgangsstjórnunaráætlanir eins og skylt er samkvæmt 28. gr. tilskipunarinnar. Þá hefur landsbundin áætlun um forvarnir gegn myndun úrgangs ekki verið uppfærð í samræmi við 29. gr. tilskipunarinnar sem krefst reglubundins mats og endurskoðunar slíkra áætlana.
Formlegt áminningarbréf er fyrsta skrefið í samningsbrotamáli.“
Eins og áður segir hefur ESA vísað tveimur aðskildum málum gegn Íslandi til EFTA-dómstólsins fyrir að hafa aðeins að hluta til innleitt viðeigandi EES-reglur. Fyrra málið varðar urðun úrgangs, en þær reglur hafa það að markmiði að takmarka magn úrgangs sem sendur er til urðunar og setja fram rekstrarkröfur fyrir urðunarstaði til að vernda heilsu manna og umhverfi. Ísland fékk formlegt áminningarbréf vegna málsins í ágúst 2022 og svo rökstutt álit í febrúar 2023.
Hitt málið varðar það að Ísland hafi ekki að fullu innleitt EES-reglur um umbúðir og umbúðaúrgang, en þær reglur kveða á um hvaða tegundir umbúða megi setja á markað innan EES, sem og reglur um meðhöndlun og fyrirbyggjandi ráðstafanir. Markmið reglnanna er að vernda umhverfið og tryggja jafnræði á innri markaði EES. Ísland fékk formlegt áminningarbréf í mars 2022 og rökstutt álit í maí 2022.
Vísan mála til EFTA-dómstólsins er lokaskrefið í formlegu samningsbrotamáli ESA gegn aðildaríki.