Dótturfélag Isavia, Isavia ANS, hefur verið sýknað í máli sem fyrrum starfsmaður höfðaði gegn félaginu vegna meintra aldursfordóma, en konan krafðist 28 milljóna í skaðabætur.
Málið snerist um reglur Isavia sem fjalla um aldurstengd starfslok almennra starfsmanna. Þar segir að starfsmenn eigi að láta af störfum við 67 ára aldur og miðast tímamarkið við lok afmælismánaðar. Þessar reglur hafa breyst í gegnum árin en þegar kórónuveirufaraldurinn skall á miðuðu reglurnar við 70 ára aldur. Til að bregðast við faraldrinum ákvað Isavia að lækka aldursmarkið aftur niður í 67 ára til að fækka starfsfólki, en sú aðgerð var nauðsynleg vegna minni veltu í faraldrinum.
Eftir að faraldurinn var genginn yfir var þó ekki ráðist í að hækka aldurinn að nýju.
Þetta mál varðaði konu sem varð 67 ára árið 2024. Hún hafði með góðum fyrirvara, á árinu 2023, fengið bréf frá Isavia þar sem tekið var fram að hún myndi ljúka störfum í mánaðarlokin eftir 67 ára afmælið. Eftir að konan tók við bréfinu fór hún í veikindaleyfi og sneri ekki aftur til starfa. Reglur Isavia hafa að geyma undanþáguákvæði þar sem hægt er að semja við starfsfólk, sem komið er á aldur, til skamms tíma í senn. Yfirmenn konunnar höfðu reynt að fara þá leið en það gekk ekki eftir.
Konan taldi starfslokin sín ólögmæt. Sjónarmið sem urðu til þess að aldurinn var lækkaður úr 70 ára niður í 67 ára ættu ekki lengur við. Auk þess væri aldur í eðli sínu ólögmætt sjónarmið við ákvarðanatöku. Aldur segi ekkert um eiginleika einstaklings og að líta til aldurs við ákvörðun um starf sé jafn ólögmætt og að horfa til kynferðis, kynþáttar, litarháttar, þjóðernis, trúarbragða eða annarra atriða sem heyra undir jafnréttisákvæði stjórnarskrárinnar. Eins hefði Isavia brotið gegn ákvæðum stjórnarskrárinnar um atvinnu- og eignafrelsi með uppsögninni. Konan benti á að í ráðningarsamningi hennar komi fram að starfslok séu miðuð við 70 ára aldur. Auk þess hafi yfirmenn hennar reynt að fá undanþágu frá reglunum beitt sem hafi gert henni réttmætar væntingar um að hún væri ekki að fara að láta af störfum 67 ára.
Konan sagði að uppsögnin hafi valdið henni kvíða, streitu og andlegum þjáningum. Það sé augljóst að atvinnutækifæri 67 ára gamallar konu séu takmörkuð enda hafi henni ekkert gengið í atvinnuleit. Eins hafi uppsögnin falið í sér ólögmæta meingerð gegn persónu hennar, æru, starfsheiðri og reynslu.
Eins vísaði hún til úrskurðar kærunefndar jafnréttismála gegn Isavia ANS þar sem félagið var talið brotlegt við jafnréttislög fyrir að hafa sagt aðila upp störfum við 67 ára aldur.
Isavia tók fram að í ráðningarsamningi konunnar segi að miða skuli við annaðhvort 70 ára aldur eða þá gildandi reglur Isavia á hverjum tíma. Hér hafi konan vitað árum saman að starfslok væru miðuð við 67 ára aldur. Úrskurður kærunefndar jafnréttismála hafi ekki fordæmisgildi þar sem málsatvik voru önnur. Þar var fjallað um mál aðila sem var orðinn 67 ára þegar reglunum var breytt. Ekki væri hægt að sjá hvernig konan hefði orðið fyrir miska vegna málsins.
Dómari í málinu rakti að þó svo að reglunum hafi verið breytt vegna heimsfaraldurs þá þýði það ekki sjálfkrafa að þær eigi ekki rétt á sér þegar það ástand sé gengið yfir. Til dæmis sé miðað við 67 ára aldur, þar sem það er sá aldur þar sem fólk getur hafið töku lífeyris, og að regla sem þessi sé til þess fallin að auka aðgengi yngra fólks að störfum og draga þannig úr atvinnuleysi. Konan hafi vitað af breytingunni í um þrjú ár áður en henni var tilkynnt um fyrirhuguð starfslok.
Isavia var því sýknað í málinu.