Þetta segir Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, í pistli á Facebook-síðu sinni þar sem hún gerir gagnrýni fyrrverandi þingkonu í sinn garð að umtalsefni. Það vakti athygli í gær þegar Sólveig Anna lýsti fundi sem haldinn var í leikskóla í borginni. Sagði hún að fulltrúar borgarinnar hefðu tekið fyrir það að töluð væri annað en íslenska.
Sjá einnig: Segir fulltrúa Reykjavíkurborgar hafa verið illa undirbúna og sýnt virðingarleysi
Eva Bergþóra Guðbergsdóttir, samskiptastjóri Reykjavíkurborgar, lýsti því svo í viðtali við Vísi að um hefði verið að ræða einkarekinn leikskóla og reksturinn sé ekki í höndum borgarinnar. Starfsmaður borgarinnar hafi mætt á fundinn en ekki treyst sér til að tala ensku. Það hafi verið hlutverk skólans, en ekki Reykjavíkurborgar, að útvega túlk.
„Þetta væri okkar vandamál ef þetta væri skóli sem við værum að reka en svo er ekki,“ sagði Eva við Vísi.
Málið vakti talsverða athygli á samfélagsmiðlum og skrifaði til dæmis Margrét Tryggvadóttir, rithöfundur og fyrrverandi þingkona, færslu á Facebook þar sem hún gagnrýndi framgöngu Sólveigar Önnu. Tengdi hún uppákomuna við þá háværu umræðu sem verið hefur um hugtakið „woke“ á síðustu dögum.
Í færslu sinni sagði Margrét:
„Ég er sennilega mjög „vók“ en ég skil samt alveg gagnrýni á hugtakið. Það sem mér finnst kannski gagnrýnisverðast við blessað vókið er þessi tilhneiging sumra til að reyna að nappa fólk við að vera fordómafullt, taka ekki tillit til minnihlutahópa eða hafa breytt rangt fyrir slysni eða af ásetningi og upphefja sjálfa sig í leiðinni fyrir að vera miklu betri en aðrir með því að koma auga á bjálkann í augum annarra … en kannski ekki sínum eigin. Hér er ákveðið dæmi um það – hent í status og hneykslast yfir því að Reykjavík heimti að eingöngu sé töluð íslenska á foreldrafundum í leikskólum borgarinnar – þegar borgin átti bara alls ekki leikskólann né stóð fyrir umræddum fundi.”
Sólveig Anna skrifaði færslu í gærkvöldi þar sem hún svaraði þessum ummælum fullum hálsi og varpaði frekara ljósi á túlkamálið. Hún segir að trúnaðarmaður, frábær kona af erlendum uppruna, hafi komið að máli við hana á trúnaðarmannanámskeiði hjá Eflingu í gær og lýst reynslu sinni frá fundinum. Hún hafi raunar verið „sjokkeruð” að sérfræðingur hjá eignasviði borgarinnar hafi neitað að svara spurningum sem bornar voru upp á ensku.
„Aðfluttir foreldrar sem að töluðu á ensku voru hundsaðir og starfsfólk leikskólans sem talar íslensku með hreim upplifði að sérfræðingurinn vildi heldur ekki svara þeim. Bæði trúnaðarmanni Eflingar og trúnaðarmanni annars stéttarfélags var svo misboðið að þær, báðar aðfluttar konur, létu stéttarfélög sín vita. Þær ásamt öðrum sem að fundinn sátu voru vonsvikin og reið yfir þessari ömurlegu framkomu,“ segir Sólveig Anna meðal annars sem skrifaði, sem fyrr segir, færslu um málið í hádeginu í gær þar sem hún lýsti uppákomunni.
„Í kjölfar þess að ég birti statusinn töluðu fjölmiðlar við samskiptastjóra borgarinnar sem sagði að ég færi með rangt mál og að fundurinn hefði ekkert komið borginni við. Í tilefni af þessu skrifar Margrét Tryggvadóttir rithöfundur status þar sem að hún segir að ég sé með frásögn minni að reyna að „nappa fólk við að vera fordómafullt“ og upphefja sjálfa mig fyrir að vera betri en aðrir. Rithöfundurinn skrifar statusinn sem innlegg í umræðuna um woke – að ég hafi með því að skrifa um ruglið sem átti sér stað á fundinum í gær gerst sek um að vera vonda útgáfan af woke. Ólíkt henni sjálfri sem er woke á réttan hátt. Ég get ekki annað en reiknað með því að alltaf þegar ég tala um málefni Eflingarfólks af erlendum uppruna eða um stöðu innflytjenda á Íslandi almennt telji Margrét að ég geri það aðeins vegna narsisisma eða vegna þess að ég telji ekki mikilvægt að umgangast sannleikann af virðingu.“
Sólveig Anna virðist vera komin með nóg af þessari umræðu.
„Svona getur stéttaandúð woke-sins birst með skýrum hætti. Formaður í 28.000 manna stéttarfélagi, þar sem að meirihluti félagsfólks er af erlendu bergi brotið, segir frá skammarlegri framkomu íslensks sérfræðings við aðflutt fólk. Hátt settur starfsmaður hjá hinu opinbera segir að formaðurinn sé ekki að segja satt – og frægi rithöfundurinn trúir því samstundis, svo heitt að hún skellir í status til að reyna að vinna í einhverri fáránlegri þrá í að vinna sér inn woke-stig og koma höggi á mig,“ segir hún í færslu sinni frá því í gærkvöldi.
Hún segir að lokum að til viðbótar við erlendu konurnar sem lýstu atburðarásinni með málefnalegum hætti hafi íslenskur karl sem sat fundinn einnig haft samband. „Hans lýsing er nákvæmlega sú sama og trúnaðarmannanna,“ segir hún.