Þetta segir Sigurbjörg Erla Egilsdóttir, bæjarfulltrúi Pírata, í pistli á vef Vísis. Tilefni skrifanna eru hagræðingartillögur bæjarstjórans, Ásdísar Kristjánsdóttur, sem samþykktar voru í lok mars.
Í pistli á Vísi í morgun sagði Ásdís að Kópavogur væri að forgangsraða í þágu kennara, barna og skólastarfs. Tillögurnar sem hlotið hafa samþykki bæjarstjórnar fælu í sér aðgerðir að fjárhæð 680 milljónir króna á ársgrundvelli. Er þetta gert til að mæta nýgerðum kjarasamningi kennara.
Benti Ásdís á að laun kjörinna fulltrúa lækki um 10%, launafrysting lykilstjórnenda verði í gildi til júlí 2026 og þá lækki laun bæjarstjóra, bæði sem kjörinn fulltrúi um 10% og sem stjórnandi með launafrystingu í 15 mánuði.
En það er fleira sem hangir á spítunni, að sögn Sigurbjargar. Þannig hafi Ásdís skautað fimlega framhjá þeirri staðreynd að í þessari „svokölluðu“ forgangsröðun felist meðal annars veruleg hækkun á gjöldum fyrir sumarnámskeið barna í sveitarfélaginu.
„Gjald fyrir hefðbundin frístundanámskeið hækkar í sumar um 53% frá því í fyrra. Gjald fyrir smíðanámskeið – þar sem börn fá að smíða sína eigin kofa – hækkar um allt að 105%. Já, þú last rétt: Það mun kosta rúmlega tvöfalt meira fyrir börn að smíða sér kofa í sumar en það gerði í fyrra.“
Sigurbjörg segir það alveg rétt að námskeiðin séu enn ódýrari en þau sem íþróttafélögin bjóða upp á. Fyrir margar fjölskyldur séu þessi námskeið ekki bara ódýrari valkostur heldur eini raunverulegi möguleikinn fyrir þau til að bjóða börnum sínum upp á að sækja sumarnámskeið.
„Þessi hækkun er nýjasta dæmið í röð aðgerða sem bitna sérstaklega á barnafjölskyldum í Kópavogi. Á kjörtímabilinu hafa meirihlutaflokkarnir, Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn, þegar hækkað leikskólagjöld um 30% fyrir 8 klukkustunda vistun,“ segir Sigurbjörg sem telur þetta ekki hæfa samfélagi sem vill teljast barnvænt.
„Í barnvænu samfélagi er það grundvallarregla að meta áhrif allra ákvarðana á börn. Fulltrúar meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknar höfnuðu því að vísa tillögunni til umsagnar Ungmennaráðs Kópavogs. Hlutverk ráðsins er að gæta hagsmuna barna í Kópavogi, og þessi tillaga snertir þá hagsmuni með afgerandi hætti. Kópavogsbær ber jafnframt ábyrgð sem barnvænt sveitarfélag. Áður en ákvarðanir sem varða börn eru teknar, á að meta áhrif þeirra á börn og það sem barni er fyrir bestu á alltaf að hafa forgang.“
Að mati Sigurbjargar þarf að velta fyrir sér hvaða áhrif slík gjaldskrárhækkun hefur á börn í Kópavogi.
„Gæti hún útilokað börn úr tekjulægri fjölskyldum frá þátttöku í sumarstarfi? Takmarkar hún aðgengi barna að frístundum, sem eru lykilþáttur í félagsfærni, öryggi og vellíðan barna?“
Sigurbjörg segir að lokum að það sé í besta falli villandi hjá bæjarstjóra að tala um aðgerðir í þágu barna. Börnin séu í raun að borga fyrir hagræðinguna.
„Ég fordæmi þessar hækkanir og tel þær bæði óréttlátar og skammarlegar. Þetta er ekki forgangsröðun í þágu barna – þetta er forgangsröðun á kostnað þeirra.“