fbpx
Laugardagur 12.apríl 2025
Fréttir

Arna Magnea birtir hatursfull skilaboð frá þekktum einstaklingum

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 10. apríl 2025 09:15

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Leikkonan Arna Magnea Danks birti skjáskot af fordómafullum og ógeðslegum athugasemdum sem hafa verið ritaðar um hana á netinu. Sumar hverjar frá þekktum einstaklingum eins og Margrét Friðriksdóttir, frumkvöðlafræðingi, Helgu Dögg Sverrisdóttur, kennara, og þáttastjórnanda hlaðvarpsins Norræn Karlmennska, Jóns Einarssonar Þormars Pálssonar.

Arna er fyrsta opinberlega trans leikkonan á Íslandi og vakti mikla athygli fyrir leik sinn í kvikmyndinni Ljósvíkingar, sem hlaut níu tilnefningar á Eddunni.

Hún opnar sig um áreitið sem hún hefur þurft að þola á netinu í pistli á Facebook.

„Í viðtali á Bylgjunni talaði ég um að vera afmennskuð á samfélagsmiðlum og jafnvel hótað lífláti í einkaskilaboðum, jafnvel frá Brotkast fólkinu,“ segir hún.

Brotkast er streymisveita í eigu fjölmiðlamannsins Frosta Logasonar. Hann sjálfur heldur þar úti tveimur þáttum, Harmageddon og Spjallið með Frosta Logasyni. Norræn karlmennska er einnig á veitunni. Arna birti skjáskot af því þegar Jón miskynjaði hana á Facebook.

„Átti ég þar við afmennskuna sem á sér stað í minn garð og annars trans fólks í þáttunum þeirra og í þeirra athugasemdum hér og þar á netinu. Ég sakaði engan þeirra persónulega um að hóta mér lífláti, þó vissulega hefur verið gefið í skyn að það muni verða þaggað niður í mér,“ segir Arna.

„Ég hef ekki geð, né andlega heilsu til að lesa allt sem hefur verið skrifað og sagt um mig vegna þess eins að ég er trans. Eitthvað sem þetta fólk skilur ekki og vill ekki skilja, eða hreinlega er drull sama og hatar bara trans fólk af því það kemst upp með að hata.“

Skjáskot sem Arna birti.
Skjáskot sem Arna birti.

Hrekkjusvín

Arna segir að hrekkjusvínin á leikvellinum alist oft upp í að verða hrekkjusvín og óþverrar alls staðar í gegnum lífið. „Og ekkert er betra í þeirra augum en að ráðast á hóp af fólki sem er svo agnarsmár hlutir samfélagsins að það á varla möguleika á að svara fyrir sig,“ segir hún.

„Ég hef ekki það dagskrárvald í þessum heimi að ég megi verða sár eða reið yfir því hvernig er komið fram við mig og ég kölluð í tíma og ótíma „karl í kjól“, „ógeð“, „viðbjóður“, „geðsjúklingur“ og fleira í þeim dúr. Ég þarf að passa mig að vera ljúf, þolinmóð, sýna virðingu fyrir ólíkum „skoðunum“, þó þær beinist beint að mínu frelsi til lífs, og ég þarf að vera rökvís og fara sönnur fyrir öllu sem ég held fram.

Sem ég hef gert og við öll sem erum trans, höfum gert, aftur og aftur og aftur og aftur. Lagt fram ritrýndar fræðigreinar, lagt fram rannsóknaniðurstöður, sagt frá eigin reynslu og meira að segja sýnt fram á að allar helstu vísindastofnanir heimsins eru á einu máli um að það að vera trans er meðfædd og líffræðilegt frávík frá heildinni, á sama hátt og það er líffræðilegt frávik frá heildinni að vera örvhent(ur).

En hatrið vill hata og afsakar eigin fyrirlitningu og fordóma fyrir fólki sem það skilur ekki og vill ekki skilja, sem „skoðun“!“

Skjáskot sem Arna birti.

Vitna í Biblíuna án þess að hafa lesið hana

Arna segir að fólkið sem á það til að vísa í Biblíuna hefur ekki einu sinni lesið hana eða veit að það séu til ótal útgáfur.

„Fólk sem oftar en ekki talar um og vitnar í Biblíuna, án þess þó að hafa lesið hana eða gert sér grein fyrir að yfir 40.000 útgáfur séu til af því riti og að öll vestræn rit eru misvel þýddar útgáfur af grískri útgáfu sem var þýdd úr hebresku og var skrifuð af mörgum mismunandi mönnum yfir ansi langan tíma og ekki eitt einasta orð um eða gegn trans fólki þar. Hins vegar er oft talað um að sýna kærleik og skilning,“ segir hún.

„Fólk er allskonar og sumt horfir og les vísindaskáldsögur á meðan annað fólk horfir helst bara á fréttir, á meðan aðrir vilja bara góðan krimma. En allt sem fólk les og horfir á krefst þess að við séum tilbúin að trúa á hið ómögulega eða setja okkur inn í hluti sem við erum oftar en ekki fjarlæg í daglegu lífi. Af hverju er það þá svona erfitt fyrir fólk að skilja að kona sem fæðist í líkama karls, er samt ekki karl og verður aldrei karl, sama hvað hún reynir að venjast þessu farartæki. Því það skiptir engu hvort við trúum á eitthvað eða ekki, þá er það samt staðreynd að kjarninn okkar getur verið eitt og umbúðirnar annað. T.d verða grænar baunir í dós aldrei að gulrótum, þó svo að merkimiðinn á dósinni segi gulrætur!“

Það velur þetta enginn

Arna segir að hún eigi ekki að þurfa í sífellu að verja sig og sína tilvist.

„Ég hefði ekki átt að þurfa að berjast fyrir því allt mitt líf að finna leiðina að sjálfri mér vegna fordóma, fáfræðis og haturs samfélagsins. Og ég hefði ekki átt að þurfa að sanna fyrir allskonar fólki, þar með heilbrigðisstarfsfólki að ég væri sú sem ég er og hef alltaf verið,“ segir hún.

„Trans fólk er ekki undirtegund mennskunnar og er ekki ógn við einn eða neinn og hver einasti fullorðni einstaklingur sem er trans, var eitt sinn trans barn sem í all flestum tilvikum fékk ekki að blómstra sem sitt sanna sjálf og það tráma er algjörlega á ábyrgð samfélagsins og hefði mátt forðast. Þess vegna er það að fullorðið trans fólk í dag er að berjast fyrir réttindum trans barna til að þau þurfi ekki að burðast með slíkt andlegt sár út allt sitt líf.“

Skjáskot sem Arna birti.

Arna segir að það velji enginn að vera trans. „Af hverju ættum við að velja að vera afmennskuð í tíma og ótíma? Af hverju ættum við að velja líf þar sem við búum við ótta og þurfum í sífellu að vera sett í það hlutverk að fræða og berjast gegn fáfræði og fordómum?“

Hún ákvað að birta nokkur skjáskot til að sýna hvað fólk hefur sagt bæði um hana og annað trans fólk. „Og þið getið sjálf dæmt hversu eftirsóknarvert það er að vera trans. Og ef þið haldið að ég sé að berjast fyrir athyglina þá gætu þið ekki haft meira rangt fyrir ykkur, því þetta er ekki athyglin sem ég þarf. Hatrið neyddi mig til að berjast og vera sýnilega,“ segir hún.

Sjá einnig: Helgu bolað úr formannssæti vegna skrifa um trans-málefni

Skjáskot sem Arna birti.

Að lokum segir hún: „Það er ekki skoðun að kalla trans fólk hugmyndafræði! Það er ekki skoðun að rangkynja trans fólk! Það er ekki skoðun að afmennska annað fólk! Þetta er hatur!“

Pistil Örnu má lesa í heild sinni hér að neðan, auk þess má sjá fleiri skjáskot en þau eru 32 í heildina.

Lokað er fyrir athugasemdir
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Geðlæknir með áratugareynslu varar við: „Ekkert sambærilegt úrræði er til“

Geðlæknir með áratugareynslu varar við: „Ekkert sambærilegt úrræði er til“
Fréttir
Í gær

Fyrrum forstöðumaður sambýlis á Blönduósi ákærður fyrir umboðssvik í opinberu starfi og fjárdrátt

Fyrrum forstöðumaður sambýlis á Blönduósi ákærður fyrir umboðssvik í opinberu starfi og fjárdrátt
Fréttir
Í gær

Jakob Bjarnar skrifaði bréf til þjófsins og í kjölfarið gerðust undarlegir hlutir

Jakob Bjarnar skrifaði bréf til þjófsins og í kjölfarið gerðust undarlegir hlutir
Fréttir
Í gær

Jóhannes ómyrkur í máli og segir Ísland vera að tapa samkeppninni

Jóhannes ómyrkur í máli og segir Ísland vera að tapa samkeppninni
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Hryllingur á hjúkrunarheimili – Starfsmaður réðst á vistmann

Hryllingur á hjúkrunarheimili – Starfsmaður réðst á vistmann
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sigurbjörg birtir dæmi um mikla hækkun í Kópavogi – „Já, þú last rétt“

Sigurbjörg birtir dæmi um mikla hækkun í Kópavogi – „Já, þú last rétt“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Hryðjuverkaógn á Íslandi – Segja einstaklinga hér á landi langa og geta framið voðaverk

Hryðjuverkaógn á Íslandi – Segja einstaklinga hér á landi langa og geta framið voðaverk
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Varar ríkisstjórnina við að breyta þessum málaflokki – „Myndi skaða samkeppnishæfni okkar á erlendum vettvangi“

Varar ríkisstjórnina við að breyta þessum málaflokki – „Myndi skaða samkeppnishæfni okkar á erlendum vettvangi“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Guðrún fór með 15 ára dóttur sinni á fótboltaleik – Blöskraði það sem hún sá

Guðrún fór með 15 ára dóttur sinni á fótboltaleik – Blöskraði það sem hún sá