Þetta sagði Benedikt í aukafréttatíma RÚV.
Eins og greint var frá í morgun opnaðist sprunga sunnan við varnargarðana fyrir ofan Grindavík en flæði úr henni er tiltölulega lítið. „Hún er ekki stór en hún er örlítið að lengjast í áttina að Grindavík, ég held það séu 500 metrar í nyrstu húsin.“
Benedikt sagði að möguleiki væri á að kvika myndi renna ofanjarðar í átt að bænum en vísindamenn hafa einnig áhyggjur af öðru.
„Það getur komið hraunflæði, ef það er nógu langvinnt, inn í bæinn en líka er möguleikinn á því að það eru miklar sprungur undir Grindavík og við höfum áhyggjur af því að kvika flæði ofan í sprungunum og upp einhvers staðar innan bæjarins, það er möguleiki. Við getum ekki útilokað það, það er kannski aðaláhyggjuefnið frekar en að hún lengist mikið,“ sagði Benedikt.