Björgunarsveitarfólki sem var að störfum í Grindavík í aðdraganda eldgossins í morgun var ógnað með skotvopni af ósáttum íbúa sem vildi ekki yfirgefa bæinn, er rýming stóð yfir. Vísir greindi frá.
Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segir ekki staðfest af hvaða ástæðum björgunvarsveitarfólkinu var ógnað en viðkomandi aðili hafi síðan farið út úr bænum. Jón Þór vill ekki tjá sig mikið um málsvatvik þar sem þau eru enn ekki fyllilega ljós. Hann staðfestir að fólkið hafi fengið áfallahjálp.
„Ég er ekki á hreinu með hvað mörg áttu í hlut en þau eru fleiri en eitt sem fengu tilboð um sálræna aðstoð eða áfallahjálp. Þau voru tekin út úr þessum aðstæðum strax í kjölfarið.“
Jón Þór segir að atvikið hafi eðlilega vakið fólkinu óhug. „Á þessum tímapunkti er ég að heyra okkar fólki en þetta augljóslega eitthvað sem enginn á von á – ekki bara í starfi björgunarsveita.“
Jón Þór segir mikilvægt að björgunarsveitarfólkið hafi strax verið tekið út úr þessum aðstæðum og lögreglan tekið yfir. „Við hlúum að okkar fólki,“ segir Jón Þór og segir að það sé mikilvægasta verkefnið núna hvað þetta atvik snertir.