Í nýrri Facebook-færslu Eldfjalla – og náttúruvárhóps Suðurlands er farið yfir stöðuna á eldgosinu í Grindavík. Fram kemur að gosið sé enn sem komið er fremur afllítið en skjálftavirkni í norðurenda kvikuinnskotsins bendi til að mögulegt sé að upp komi eldgos á fleiri stöðum í þeim tveimur sprungum sem nú þegar hafa opnast nærri Grindavík.
Fram kemur í færslunni að gosið við sé er fremur afllítið og hraunrennsli fari hægt yfir. Eigi það við um virknina bæði innan sem utan varnargarða.
Hrauntungan frá megingossprungunni hafi myndað hrauntjörn norðan varnargarða, ofan á hrauni úr fyrri gosum.
Mesta lengd gossprungunnar hingað til sé 700-900 metrar og flæði hafi verið um stærðargráðu minna en í síðustu gosum, í mesta lagi 100-200 rúmmetrar á sekúndu.
Áfram sé þó mjög mikil skjálftavirkni í norðurenda kvikuinnskotsins. Innskotið virðist þar hafa troðist lengra til norðausturs en áður hafi sést síðan jarðhræringarnar í Svartsengi hófust að alvöru í lok árs 2023. Ekki sé því enn hægt að útiloka að gjósa taki á öðrum svæðum yfir kvikuganginum sem myndast hafi síðustu klukkutíma.
Alls hafi yfir 10 skjálftar mælst yfir 3 að stærð síðustu tímana, flestir í norðurenda kvikugangsins.