Kynjafræðingurinn Þorsteinn V. Einarsson er verulega ósáttur við að fá ekki boð til Bessastaða á dögunum. Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, efndi til kærleiksfundar á Bessastöðum þann 27. febrúar síðastliðinn og boðaði þangað hóp karlmanna, á ýmsum aldri og úr ólíkum hópum samfélagsins, til að ræða andlega líðan ungmenna í samfélagi nútímans og mögulegar leiðir til að ráðast að rót vandans og hafa áhrif til góðs í þeim málaflokki. Sérstaklega var horft til stöðu ungra karla á fundinum.
Nokkrir þjóðþekktir menn fengu boð á fundinn, til að mynda Þorgrímur Þráinsson, Bergur Ebbi Benediktsson, Ásmundur Einar Daðason, Binni Glee og Tolli Morthens en Þorsteinn mátti sitja heima. Telur hann að ástæðan sé mögulega sú að það sé ekki nógu næs að taka afgerandi afstöðu gegn karlrembum, karllægni og fúski.
„Ég ætti kannski bara að vera meira kósí,“ skrifar Þorsteinn í færslu á Facebook en á dögunum fór Þorsteinn mikinn í gagnrýni sinni á svokölluðum kósífemínistum.
Má greina á orðum Þorsteins að hann telji ólíklegt að fundurinn verði til nokkurs gagn því þar hafi varla verið ráðist að rótum vandans.
„Rannsóknir og sérfræðingar hafa bent á að það er algjörlega marklaust að breyta einungis birtingamyndum karlmennskunnar. Það þarf að ráðast að rótum vandans, ekki bara afleiddum birtingarmyndum hans. Það þýðir að ekki er hægt að skoða áhættuhegðun drengja, óöryggi og reiði karla, námsárangur drengja og tíðni sjálfsvíga nema skoða rótina. Hvað veldur? Hvers vegna karlmennskan getur verið svona brutal? Oftast stoppar samtalið þar. Af því það þýðir að við þurfum að horfast í augu við hluti sem eru erfiðir og óþægilegir. Eins og sá sem er með krabbamein, eitt er að fá greiningu og allt annað að takast á við að berjast við það og axla ábyrgð á bata (ef hann er til),“ skrifar Þorsteinn.
Segir hann suma karla til í að takast á við hluta „krabbameinsgreiningarinnar“ en fæstir séu til í að fara lengra.
„Kafa í samfélagsgerðina, söguna og uppsprettu meinsins; skaðlegu karlmennskuna. Horfast í augu við forréttindin, ofbeldið og sjálfskaðann. Karlar virðast bara til í að skoða gjald karlmennskunnar. Og vera fórnarlamb.
Skaðlega karlmennskan kostar nefnilega ekki bara drengi og karla. Hún kostar trans fólk, hinsegin fólk, sumar konur, jaðarsetta karla, samfélagið og heiminn allan eins og má sjá með öfgafullum birtingarmyndum nokkurra þjóðarleiðtoga. Gjaldið er undirskipun, aðgreining, útilokun, jaðarsetning, ofbeldi og stundum lífið sjálft.
Ef okkur er alvara með að vilja skapa jákvæða eða heilbrigða karlmennsku þá þarf að skoða allan pakkann. Kvenfyrirlitninguna, hómófóbíuna, ofbeldið, forréttindin og á sama tíma líðan og lífsgæði drengja og karla,“ skrifar Þorsteinn.
Segir hann að þar sé mögulega komin ástæða þess að honum var ekki boðið til Bessastaða og í raun engum sem hefur rannsakað karlmennsku eða hafi kynjafræðimenntun.
„Það þykir kannski ekki nógu kærleiksríkt að benda á ofbeldi, forréttindi og karllægt yfirlæti. Það er ekki nógu næs að taka afgerandi afstöðu gegn karlrembum, karllægni og fúski. Mögulega þarf ég bara að breyta um aðferðafræði og vera ekki svona gallaður… eins og sagt hefur verið við allt fólk sem bendir á það sem enginn vill sjá. Ég ætti kannski bara að vera meira kósí,“ skrifar Þorsteinn.