Ónefndur maður kom að máli við DV og greindi frá því að stór hluti innflytjenda frá Víetnam hér á landi hefðu fengið dvalar- og atvinnuleyfi með því að framvísa fölsuðum hæfnisskírteinum. Maðurinn sýndi DV stafla af ljósritum af hæfnisvottorðum sem hann segir skorta stimpil frá viðkomandi ráðuneyti í landinu, en það er augljósasta merkið um að skírteini séu fölsuð. Einnig segir hann að dæmi séu um að slíkir stimplar séu falsaðir.
Íbúar utan Schengen-svæðisins geta fengið tímabundið atvinnuleyfi hér á landi vegna starfa sem krefjast sérfræðiþekkingar. Skilyrði fyrir veitingu leyfisins er að starfið sem sótt er um atvinnuleyfi fyrir krefjist þess að starfsmaðurinn búi yfir sérfræðiþekkingu, þ.e. hafi háskóla-, iðn-, list- eða tæknimenntun í viðkomandi fagi, sem viðurkennd sé á Íslandi.
Maðurinn sem leitaði til DV með upplýsingar segir að um 200 manns frá Víetnam starfi hér ýmist sem matreiðslumeistarar eða snyrtifræðingar. Stór hluti af þessum hópi séu ekki með tilskilda menntun en hafi lagt fram fölsuð skilríki um menntun sína. Hann segir að Útlendingaeftirlitið og Vinnumálastofnun séu í auknum mæli farin að kalla eftir staðfestingu á því að gögnin sem þessir umsækjendur leggja fram séu gild. Miklu lengra þurfi þó að ganga í þeim efnum. Hann nefnir til sögunnar fjölmarga þekkta veitingastaði og skyndibitastaði hér á landi þar sem hann fullyrðir að starfi starfsfólk sem lagt hafi fram fölsuð hæfnisskírteini í umsóknum sínum um atvinnu- og dvalarleyfi. Í þeim hópi veitingastaða er meðal annars að finna asískan veitingastað í Reykjanesbæ þar sem allir starfsmennirnir séu starfandi á grundvelli falsaðra skírteina, um tíu manns.
„Hingað hefur stór hópur Víetnama komið til starfa sem matreiðslumeistarar og framvísað fölsuðum skírteinum Núna þurfa þeir ekki að vinna lengur í því fagi heldur geta unnið við hvað sem er. Þetta er ekki í samræmi við lög og á ekki að viðgangast,“ segir þessi viðmælandi DV.
„Útlendingastofnun og Vinnumálastofnun eru meðvituð um þetta ástand og ég skil ekki hvers vegna þau gera ekki meira til að stöðva þetta. Það þarf að vekja athygli á þessu ástandi,“ segir hann ennfremur.
Eftir spjallið við manninn og lauslega skoðun á gögnum hans sendi DV fyrirspurn til Vinnumálastofnunar (VMST), spurði hvort hún kannaðist við þennan vanda og hvort stofnunin hefði gripið til einhverra aðgerða.
Í nokkuð ítarlegu svari frá stofnuninni kemur meðal annars fram að VMST telst ekki lögbært stjórnvald til að staðreyna menntunargögn og er því leitað upplýsinga hjá Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu (HVIN) og hjá Enic-Naric skrifstofunni, sem leggur mat á erlent nám. Staðfestir VMST að ábendingar hafi borist um fölsuð gögn til öflunar starfsréttinda og hafi slíkar ábendingar verið teknar til skoðunar í samstarfi við þessar stofnanir. Svarið í heild er eftirfarandi:
„Samkvæmt 8. gr. laga nr. 97/2002 um atvinnuréttindi útlendinga er Vinnumálastofnun heimilt að veita tímabundið atvinnuleyfi vegna starfs hér á landi sem krefst sérfræðiþekkingar. Skilyrði fyrir veitingu atvinnuleyfis samkvæmt ákvæðinu er að það starf sem sótt er um atvinnuleyfi vegna, sé þess eðlis að það, samkvæmt lögum eða venju hér á landi, krefjist þess að sá sem því gegnir búi yfir sérfræðiþekkingu í formi háskóla-, iðn-, list eða tæknimenntunar sem viðurkennd er hér á landi. Ef um starf er að ræða sem krefst sérfræðiþekkingar, er litið til þess hvort starfsmaðurinn sem sótt er um atvinnuleyfi vegna, búi yfir þeirri sérfræðiþekkingu sem starfið krefst og hvort sú þekking feli í sér háskóla-, iðn-, list- eða tæknimenntun sem viðurkennd sé hér á landi.
Störf við matreiðslu og snyrtifræði eru lögvernduð starfsheiti en til að gegna lögvernduðu starfi á íslenskum vinnumarkaði þarf viðkomandi starfsmaður að hafa til þess gilt starfsleyfi samkvæmt reglugerð nr. 940/1999 um löggiltar iðngreinar sbr. 2. gr. laga nr. 42/1978 um handiðnað.
Skilyrði fyrir viðurkenningu á menntun og starfsreynslu til starfa í löggiltri iðn hér á landi koma fram í reglugerð nr. 585/2011 sbr. 9. gr. laga nr. 26/2010 um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi til starfa hér á landi. Reglugerðin gildir þegar lagt er mat á það hvort ríkisborgari á Evrópska efnahagssvæðinu eða Sviss uppfyllir skilyrði um menntun og starfsreynslu til þess að gegna lögvernduðu starfi hér á landi. Skv. 3. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar er einnig heimilt að beita ákvæðum reglugerðarinnar gagnvart ríkisborgurum annarra ríkja en aðildarríkja samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.
Þegar óskað er eftir formlegu mati á námi til starfsréttinda skal sækja um viðurkenningu til að gegna starfi til Enic-Naric skrifstofunnar sbr. 3. mgr. 1. gr. reglugerðarinnar. Þá skal sá sem óskar eftir leyfi til að veita þjónustu á sviði löggiltrar iðngreinar gefa skriflega yfirlýsingu til háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytis í samræmi við 5. gr. laga um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi til starfa hér á landi, nr. 26/2010, skv. 1. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar. Fái einstaklingur viðurkenningu starfsréttinda sinna hjá HVIN þarf að sækja um starfsleyfi iðnaðarmanns til Sýslumanns.
Vinnumálastofnun telst ekki lögbært stjórnvald til að staðreyna uppruna eða leggja sjálfstætt mat á hvort menntunargögn séu þess eðlis að skilyrði fyrir veitingu starfsleyfis í löggiltri iðngrein séu uppfyllt. Ber Vinnumálastofnun því að afla upplýsinga hjá þar til bærum stjórnvöldum sem í þessu tilviki er HVIN og EnicNaric.
Vinnumálastofnun staðfestir að hafa fengið ábendingar um að lögð hafi verið fram fölsuð gögn til að afla mats- og viðurkenningar á starfsréttindum í þeim tilgangi að afla atvinnu- og dvalarleyfis hér á landi. Hafa þær ábendingar verið teknar til skoðunar í samstarfi við Enic Naric og Háskóla-, iðnaðar og nýsköpunarráðuneytið en samkvæmt 3. mgr. 25. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga getur Vinnumálastofnun aflað upplýsinga og miðlað þeim að því marki sem stofnuninni er það heimilt samkvæmt lögunum. Í þeim tilvikum þegar Vinnumálastofnun býr ekki yfir upplýsingum sem eru nauðsynlegar að mati stofnunarinnar til að viðhafa eftirlit sbr. 26. gr. laganna eða við mat á því hvort ákvæði laganna hafi verði brotin skal stofnunin óska eftir upplýsingum frá stjórnvöldum sem koma stofnuninni að gagni. Berist öðrum stjórnvöldum upplýsingar sem gefa til kynna að brotið sé gegn lögunum er þeim sömuleiðis skylt að afhenda Vinnumálastofnun upplýsingarnar án ástæðulausrar tafar. sbr. 5. mgr. 25. gr. laganna.
HVIN og EnicNaric hafa þegar endurskoðað fjölda mála í kjölfar ábendinga um meint fölsuð menntunargögn og hafa starfsleyfi iðnaðarmanna í þónokkrum tilvikum verið afturkölluð. Ef starfsleyfi er afturkallað teljast skilyrði fyrir veitingu atvinnuleyfis á grundvelli sérfræðiþekkingar ekki lengur til staðar. Kann Vinnumálastofnun þá eftir atvikum að synja umsóknum um framlengd atvinnuleyfi eða afturkalla þegar útgefin leyfi þar sem skilyrði teljast ekki lengur uppfyllt.
Ef upp koma eftirlitsmál þar sem einstaklingur finnst fyrir við önnur störf og/eða hjá öðrum atvinnurekanda en leyfið er gefið út vegna ber Vinnumálastofnun að meta hvort tilefni sé til synjunar atvinnuleyfis sbr. 7. mgr. 19. gr. laganna eða afturköllunar atvinnuleyfis sbr. 24. gr. laganna.
Hvað varðar fyrirspurn þína um vottanir stjórnvalda þá fer það eftir ríkisfangi hvort óskað er eftir keðjustimplun eða svokölluðu Apostille en í daglegu tali kallast það lögformleg staðfesting skjala. Ítarlegar upplýsingar um lögformlega staðfestingu skjala má t.d. finna á vef Þjóðskrár: https://www.skra.is/folk/eg-i-thjodskra/krofur-til-skjala/ Eins og ég kom inn á hér að ofan þá telst Vinnumálastofnun ekki bært stjórnvald til að staðreyna uppruna eða leggja sjálfstætt mat á hvort menntunargögn séu þess eðlis að skilyrði fyrir veitingu starfsleyfis í löggiltri iðngrein séu uppfyllt. Fellur það á hlut EnicNaric og HVIN sem kunna að óska eftir því að framlögð gögn séu keðjustimpluð eða Apostille vottuð.
Frekari fyrirspurnum er varðar mat á menntunargögnum þarf að beina til Háskóla-, iðnarðar- og nýsköpunarráðuneytisins eða Enic-Naric skrifstofunnar á Íslandi.“