Einn hefur verið úrskurðaður látinn eftir alvarlegt umferðarslys á hringveginum á milli Djúpavogs og Breiðdalsvíkur, skammt frá bænum Krossi fyrr í dag. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Lögreglunni á Austurlandi en þar kemur fram að klukkan 11:45 hafi borist tilkynning um slysið. Strax hafi verið ljóst að um alvarlegt slys var að ræða og allt tiltækt lið lögreglu hafi því verið sent á svæðið auk sjúkraliðs frá Fjarðabyggð auk tækjabifreiða frá Djúpavogi og úr Fjarðabyggð.
Þá komu tvær þyrlur Landhelgisgæslunnar á vettvang auk sjúkraflugvélar sem kom austur.
Um var að ræða tvö ökutæki, sem ekið var úr gagnstæðum áttum, sem skullu saman og voru tveir einstaklingar í hvorri bifreið. Einn var úrskurðaður látinn á vettvangi en aðrir voru fluttir með þyrlum Landhelgisgæslunnar undir læknishendur á Landspítalann í Reykjavík.
Rannsókn á vettvangi stendur yfir og má búast við að vegurinn verði lokaður fram á kvöld.
Rannsókn slyssins er á höndum rannsóknardeildar Lögreglustjórans á Austurlandi auk rannsóknarnefndar samgönguslysa.