Hafin er undirskriftasöfnun gegn beiðni Rastar um að fá að losa vítissóda í Hvalfirði í tilraunaskyni. Kjósarmenn óttast áhrif á náttúruna.
„Segjum nei við beiðni Rastar til Utanríkisráðuneytis Íslands um að fá leyfi til að losa óheyrilegt magn af vítissóda út í lífríki Hvalfjarðar í tilraunaskyni,“ segir í færslu með undirskriftalistanum sem hægt er að finna inni á síðunni island.is.
Listinn var settur á laggirnar í gær, föstudaginn 7. mars og er í gildi í einn mánuð. Þegar þetta er skrifað hafa tæplega 300 manns skrifað undir listann.
Eins og greint var frá í fjölmiðlum í síðasta mánuði vill sjávarrannsóknarsetrið Röst fá að dæla útþynntum vítissóda í Hvalfjörðinn, 200 tonnum nánar tiltekið. Sótt var um rannsóknarleyfi síðastliðið sumar.
Tilgangurinn er að sögn forsvarsmanna Rastar að finna leiðir til að vinna gegn loftslagsbreytingum. Það er leiðir til þess að hafið getið dregið til sín koltvíoxíð úr andrúmsloftinu á náttúrulegan hátt. Með þessu væri einnig hægt að vinna gegn súrnun hafsins.
Forsvarsmenn Rastar telja engar líkur á að tilraunin hafi neikvæð áhrif á lífríkið í Hvalfirði. Vítissódi, sem er ætandi í föstu formi, leysist vel upp í vatni og verði þá ekki hættulegur. Passa þurfi hins vegar upp á sýrustig lausnarinnar.
Ekki eru allir sannfærðir um þetta, til að mynda íbúar bæði í Kjósarhreppi og Hvalfjarðarsveit. Hafa verið skrifaðar greinar að undanförnu þar sem varað er við áformunum. Það er að þau muni hafa skaðleg áhrif á lífríkið, ekki aðeins sjávar heldur fugla einnig.
„Það eru góðar laxveiðiár í Kjósarhreppi og íbúar eðlilega hræddir um möguleg áhrif þessara aðgerða á þeirra nærumhverfi og uppbyggingu sem gæti horfið sporlaust á einu sumri vegna litlu rannsóknarinnar. Ferðaþjónusta, sem hefur byggt allt sitt upp á fallegri náttúru og unnið markvist að uppbyggingu, óttast að orðspor greinarinnar bíði skaða ef slíkar rannsóknir myndu leiða til mengunar og dýradauða,“ segir Baldur Ketilsson, íbúi í Hvalfjarðarsveit, í aðsendri grein á Skessuhorni.
Er honum meðal annars umhugað um afdrif hafarnarins. „Eru stjórnvöld að íhuga að veita leyfi fyrir að eitrað sé fyrir haferninum sem hefur verið með sitt óðal og laup (hreiður) á fyrirhuguðu þynningarsvæði eitrunar Rastar? Þarna á hann sitt óðal og hefur komið upp fjölda unga síðustu árin, einmitt á þessu þynningarsvæði tilraunarinnar. Það er hvergi minnst á það einu orði miðað við allar þessar svokölluðu forrannsóknir á tilrauninni.“