Forsvarsmenn íþróttafélagsins HK eru ósáttir við samráðsleysi Kópavogsbæjar vegna uppbyggingar stúku við félagssvæði HK. Minnihluti bæjarstjórnar segir framkvæmdina engan vegin tímabæra.
Um er að ræða milljarða uppbyggingu á stúku á Vallarkór 12. til 14 sem lengi hefur staðið til að reisa, það er síðan árið 2013. Þetta hvar hins vegar ákveðið áður en Kóraskóli reis, árið 2023, sem hefur breytt myndinni.
Sandra Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Hk, skrifaði bæjarstjórn bréf 25. febrúar vegna málsins og harmaði samráðsleysi við félagið. Í bréfinu, sem stílað er á Ásdísi Kristjánsdóttur bæjarstjóra, er þakklæti lýst yfir fyrir að ákveðið hafi verið að setja uppbyggingu íþróttamannvirkja í forgang.
„Þrátt fyrir þessa jákvæðu þróun getum við ekki horft framhjá því að skortur á samráði við félagið í aðdraganda þessarar ákvörðunar og veldur það okkur verulegum vonbrigðum,“ segir Sandra í bréfinu. „Við höfum ítrekað óskað eftir upplýsingum og fundum til að fá að taka þátt í umræðu um útfærslu mannvirkisins, en því miður hefur sú viðleitni okkar ekki fengið viðunandi viðbrögð.“
Segir Sandra það afar mikilvægt að HK fái að koma að borðinu og að tekið verði tillit til sjónarmiða félagsins. Félagið leggi áherslu á að betur hefði mátt útfæra framkvæmdina með hagkvæmari og skilvirkari nýtingu fjármagns og sem uppfylli betur þarfir félagsins.
Bendir hún á að mikil uppbygging sé í vændum í efribyggðum Kópavogs og því mikilvægt að hanna mannvirkið með skynsamlegri og framsýnni nálgun, það er til að það þjóni íbúum Kópavogsbæjar til framtíðar.
Málið var tekið fyrir á fundi bæjarráðs á fimmtudag, 6. mars, og skiptist bæjarstjórn í fylkingar eftir meiri og minnihluta í málinu.
Taldi minnihlutinn málið ekki á vetur setjandi eins og það lítur út í dag. Forsendubreyting hefði orðið.
„Það er engan veginn tímabært að leggja af stað í jafn umfangsmikla framkvæmd og hér er lagt til nú í haust, sér í lagi þar sem ekki hefur verið samráð við HK eins og fram kemur í bréfi framkvæmdastjóra HK,“ segir í bókun fulltrúa Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vina Kópavogs. „Framkvæmd sem kostar milljarða króna þarf að undirbúa mun betur bæði hvað varðar þarfir Kópavogsbæjar og íþróttafélagsins. Forsendubreyting hefur orðið eftir þarfagreininguna 2023 með tilkomu Kóraskóla.“
Undir þetta tók meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks ekki og vísaði málinu til afgreiðslu bæjarstjóra.
„Frumhönnun hefur verið kynnt í bæjarráði sem taka mið af þarfagreiningu bæjarins og HK. Sviðsmynd sem horft er til var meðal annars unnið af vinnuteymi skipuð af tveimur fulltrúum HK. Næsta skref er að funda með HK um áframhald verkefnisins. Mikilvægt er að ramminn liggur nú fyrir og hægt að stíga næstu skref. Samráð verður áfram haft við hagaðila á öllum stigum,“ segir í bókun meirihlutans.