fbpx
Sunnudagur 09.mars 2025
Fréttir

Apple bætir við átta nýjum tjáknum – „Þetta er besta tjáknið sem þeir hafa bætt við í mörg ár“

Kristinn H. Guðnason
Laugardaginn 8. mars 2025 18:30

Tjákn skipta farsímaeigendur miklu máli.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Tæknirisinn Apple hefur opinberað átta ný tjákn (emoji) sem munu fylgja nýrri uppfærslu. Miðað við viðbrögð netverja er búist við því að allavega eitt þeirra verði mjög vinsælt.

Breska blaðið Daily Mail greinir frá þessu.

Eins og snjallsímaeigendur vita eru gerðar reglulega uppfærslur á símunum sem notendur hlaða niður reglulega. Nýjasta uppfærslan hjá Apple á iOS stýrikerfinu er númer 18.4. Búist er við því að þessi uppfærsla verði komin í gagnið seint í mars eða snemma í apríl. En hægt er að fá „beta“ útgáfu af henni nú þegar.

Átta ný tjákn fylgja uppfærslunni, sem kann að koma á óvart í ljósi þess að nú þegar eru til tjákn fyrir nánast hverju sem er.

 

Tjáknin eru eftirfarandi:

Mjög þreytulegt andlit með vel sýnilega bauga undir augunum.

Blátt fingrafar.

Fjólublá sletta.

Radísa.

Draugalegt og lauflaust tré með gati.

Hljóðfærið harpa.

Skófla.

Fáni eyjunnar Sark. Bresk eyja í Ermasundi.

Eitt langvinsælast

Með fullri virðingu fyrir skóflunni, hörpunni og radísunni þá hefur eitt tjáknið skapað langsamlega mesta umræðu og eftirvæntingu. En það er hið mjög svo þreytulega andlit.

„Þetta er besta tjáknið sem þeir hafa bætt við í mörg ár,“ segir einn spenntur netverji. Og hann er ekki einn um það.

„Þetta þreytta tjákn er eitthvað sem ég mun nota stanslaust,“ segir annar.

Fyrsti fáninn í þrjú ár

Þá hefur viðbót fána eyjunnar Sark komið verulega á óvart. Nágrannaeyjurnar Jersey og Guersney eru þegar með sín eigin tjákn en það eru líka mun þekktari staðir. Á Sark búa aðeins um 500 manns, sem er svipaður fjöldi og býr í Grímsnes- og Grafningshreppi.

Þetta vekur sérstaka furðu í ljósi þess að Unicode Consortium, sem leggur til hugmyndir af nýjum tjáknum, hefur ekki bætt við nýju fánatjákni síðan árið 2022. Ástæðan fyrir því var einkum fjöldi hinsegin fána, það er að Unicode Consortium vildi helst ekki bæta við fánum sem útilokaði suma hópa. Nefndin útilokaði þó ekki að bæta við fleiri ríkja eða staðarfánum í framtíðinni og hefur það nú verið gert.

Harpan vinsæl hjá bjórdrykkjufólki

Þrátt fyrir að vekja minni athygli þá hefur harpan glatt marga netverja. Einkum vegna líkinda hennar við merki írska bjórframleiðandans Guinness.

„Ég ætla að uppfæra símann minn í fyrsta skiptið í þrjú ár til að fá þetta Guinness hörpu tjákn,“ sagði einn netverji. „Þetta hörpu tjákn er að fara að verða vinsælt hjá Guinness drykkjufólki,“ sagði annar.

Stórt fyrir radísusamfélagið

Það tjákn sem hefur fengið að kenna á því hjá húmoristunum á internetinu er radísan. Velta margir fyrir sér hvort þetta hafi verið aðkallandi viðbót.

„Hver bað um þetta radísutjákn? Pétur kanína?“ spyr einn. „Þetta er stórt fyrir radísusamfélagið,“ bendir annar á.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt